133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:11]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Það er nú venja, og ég ætla að halda mig við það, að þakka málshefjanda fyrir að taka þessa umræðu en þetta er samt orðið svolítið sérstakt þegar við erum farin að ræða í utandagskrárumræðu um viðskiptaáætlun á frumstigi. Þeir sem taka þátt í þessari umræðu af hálfu stjórnarandstöðunnar reiðast svo, þar sem hér er einungis um slíkt að ræða, að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir húðskammar hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það að reyna að upplýsa málið. (Gripið fram í.) Hún kallar hæstv. ráðherra skilaboðaskjóðu þegar hæstv. ráðherra reynir að útskýra málið fyrir þingheimi.

Það liggur alveg fyrir að hér hafa engin orkufyrirtæki gefið nein vilyrði fyrir orku til þessa meinta áltæknigarðs — ja, ekki nema að það séu einhver önnur orkufyrirtæki en Orkuveita Reykjavíkur eða Landsvirkjun. Hér er ekkert sem kallar á það að menn fari að ræða eitthvað sem ég mundi telja allar líkur á að verði aldrei nokkurn tímann. (Gripið fram í.)

Síðan kemur hér hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sem var svolítið gaman að hlusta á vegna þess að hv. þingmanni finnst augljóslega gaman að segja orðið „forsjá“. Hún sagði það mjög oft og henni kippir svolítið í pólitíska kynið þar. Hins vegar er talað hér um stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Bara til upplýsingar eru í þeirri stefnu sex svæði sem Samfylkingin vill friða samstundis, sex svæði. (Gripið fram í: Níu.) Sex svæði. Af þessum sex svæðum er Samfylkingin búin að beita sér fyrir því að fá virkjunarleyfi á fimm þannig að þetta er að verða nokkuð sérkennilegt. (Gripið fram í.)