133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:59]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki hlustað á ræðu mína. Það sem ég var að tala um og fór yfir í ítarlegu máli er umgengni þingsins og ríkisstjórnarmeirihlutans um lög um fjárreiður ríkisins. Ég nefndi dæmi framlög til Háskólans á Akureyri og um óskipta liði framhaldsskólanna, nefndi það sem dæmi. Það eru tillögur frá ríkisstjórninni sem eru að koma inn á borð okkar í fjáraukalögum. Þær breytingar voru fyrirséðar við gerð fjárlaga fyrir árið 2006.

Samkvæmt fjárreiðulögunum eiga öll fyrirséð útgjöld að koma inn í fjárlög fyrir viðkomandi ár. Þau á ekki að færa skipulega inn á fjáraukalög, vegna skipulegra vanáætlana á útgjöldum eins og þarna er tilvikið. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað vel á ræðu mína vegna þess að um þetta fjallaði ég. Meðan menn nota ekki fjárlögin eins og á að nota þau og fara ekki að fjárreiðulögum þá geta fjárlögin ekki orðið sá skýri rammi sem þau eiga að vera utan um fjárreiður ríkisins. Á meðan menn vanáætla nemendafjölda í framhaldsskóla skipulega, það var eitt dæmið sem ég tók, og geyma þau framlög fram að fjáraukalögum að hausti geta fjárlögin ekki verið það stýritæki sem þau eiga að vera. Um þetta, virðulegi forseti, snerist ræða mín.