138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

viðskipti íslenskra stjórnvalda og AGS.

[15:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að skilja orð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra öðruvísi en svo að hann álíti að Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sé ekki að segja satt. Ráðherra tók auðvitað kurteislega til orða en það er ekki hægt að skilja orð hans með öðrum hætti. Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að það hefur verið hér mánuðum saman notað sem vöndur á þingmenn og þjóðina raunar líka, að það þyrfti að klára Icesave-málið í tímaharki vegna kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það var notað sem veigamesta röksemdin fyrir því að hraða málinu að það þyrfti að klára þetta mál til þess að fá afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. (Gripið fram í.) Nú er spurningin sú, og mér finnst það skipta máli þótt hæstv. viðskiptaráðherra telji að það skipti ekki máli: Eru þeir aðilar sem við erum í samskiptum við, hvort sem það eru Norðurlöndin, (Forseti hringir.) Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða ríkisstjórn Íslands, að segja sannleikann þegar þeir tjá sig um þessi mál?