138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að segja að mér þótti ræða hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur á köflum sérkennileg og mótsagnakennd en ég ætla nú ekki að dvelja lengi við það. Hv. þingmaður las upp úr stjórnarsáttmálanum um að fiskveiðarnar ættu að vera sjálfbærar og þær ættu að vera umhverfisvænar o.s.frv. Þá langar mig að spyrja hana í framhaldinu, þar sem aukningin í skötuselskvótanum er 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, hvort það sé þá sjálfbært að hennar mati? Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á er lagt til að línuívilnun verði 15% fyrir þá sem stokka upp í landi, fyrir svokallaða trektarbáta. Hvað finnst hv. þingmanni um það ef þeir sem eru með beitningarvél stokka upp í landi, mega þeir nýta þessa heimild líka? Og í sambandi við veiðiskylduna, hefði hv. þingmaður talið eðlilegra — það er reyndar ekki í frumvarpinu — að menn hefðu svigrúm innan kennitölunnar, þ.e. að sama útgerð sem væri kannski með þrjú skip, mætti þá færa heimildir á milli án þess að vera bundin þessu? Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því?

Hv. þingmaður hefur nú oft rætt að menn hefti aðgang að einhverjum tegundum og annað. En það sem ég vil aðeins koma inn á eru þær breytingar sem verið er að gera í sambandi við karfaúthlutunina. Það liggur fyrir að ef það gengur eftir sem er í frumvarpinu, muni minni togskip fá úthlutað svokölluðum djúpkarfa, en þau hafa enga möguleika á að veiða hann. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún telji mjög skynsamlegt að gera þessar breytingar. Það er hægt að hafa þær öðruvísi, það er hægt úthluta miðað við aflareynslu því að margar útgerðir hafa eingöngu veitt gullkarfa í mjög ár og áratugi og hafa enga möguleika á að veiða úthafskarfa eða djúpkarfa (Forseti hringir.) eins og lagt er til í þessu frumvarpi.