138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd er snýr að þeim umræðum sem hér fara fram. Augljóslega eru mikilvæg mál undir og skiptir miklu að þau sjónarmið sem hér koma fram í umræðunum eigi greiðan aðgang inn í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að nefndarmenn þar geti unnið í samræmi við og tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í umræðunum. Það veldur mér nokkrum vonbrigðum hversu fáir nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eru mættir. Hér sitja þó í salnum í það minnsta tveir nefndarmenn, varaformaður nefndarinnar og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ég veit að hv. þm. Atli Gíslason er löglega afsakaður, getur ekki verið hér í kvöld, en úr því að ákveðið var að fara með þennan fund inn á kvöldið þá finnst mér að þeir þingmenn sem málið varðar helst ættu auðvitað að vera hér og taka þátt í umræðunni og hlýða á þau sjónarmið sem fram koma til að tryggja að við nýtum tíma Alþingis eins vel og mögulegt er þannig að þau sjónarmið sem hér koma fram eigi, eins og ég sagði áður, frú forseti, greiða leið inn í nefndina.