138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni fyrr við upphaf þessar umræðu sagði hv. þm. Illugi Gunnarsson að verði eignir útgerðar innkallaðar muni þær ekki standast það, þ.e. um 7% á ári, ef ég man rétt eftir honum, af eignum útgerðar innkallaðar muni þær ekki þola það. Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að gengið sé eftir því hvert álit hv. þingmanns er á veiðiheimildunum, hvort þær eru eignir, hvort fiskstofnarnir eru eignir, hvort veiðiheimildirnar sem slíkar eru eignir sem má ráðstafa að eigin vild, því að þetta er kjarni málsins, um þetta snýst deilan.

Hér hefur líka verið talað um að útgerðin hafi skilað hagnaði á hverju ári síðan þetta kerfi var tekið upp, þ.e. heimild til að framselja þessar heimildir, kaupa þær og selja eða leigja. Í dag er staðan hins vegar þannig að skuldir sjávarútvegsins eru taldar vera um 550 milljarðar kr. Réttur helmingur þeirra skulda á rætur sínar að rekja til rekstrar, þ.e. innan greinarinnar sjálfrar, kannski 52–54%, annað á rætur sínar að rekja út fyrir greinina, mestan part eftir því sem mér skilst í kaupum á hlutabréfum að stærstum hluta til í fjármálafyrirtækjum, sem er umhugsunarefni líka hvers vegna þessi fína atvinnugrein sér ekki ástæðu til að fjárfesta í greininni frekar en að fara út úr henni, og þá kannski nánast eingöngu í sama atvinnurekstri. Hvernig í ósköpunum stendur á því? Það er vandi sem við stöndum frammi fyrir í dag og því er full ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar eins og við höfum gert. Ég hvet hv. þm. Illuga Gunnarsson og flytjendur þingsályktunartillögunnar til að bogna ekki undan rökræðunni, (Forseti hringir.) krefjast þess ekki að mál séu tekin af dagskrá heldur taka rökræðuna og kryfja málið til mergjar og ljúka því. (Forseti hringir.)