138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að ljúka umræðunni, en ég held að við séum á rangri leið ef við ætlum að ljúka umræðunni með því að setja fram eða kasta fram hugmyndum eins og þessari fyrningarleið, þá erum við ekki að ljúka neinni umræðu heldur endurvekja umræðu og búa til meiri deilur. Við hefðum alveg eins getað sett fram tillögu um það að úr lögunum færi orðið „sameign“ og það yrði bara eign útgerðarmanna. Það hefði haft álíka gáfuleg áhrif held ég og þessi yfirlýsing varðandi fyrninguna. Við verðum að hafa umræðuna á skynsamlegu plani. Ég tel því miður að þessi fyrningarumræða fari með umræðuna á óskynsamlegt plan.

En varðandi ímyndina, þá er mér ljúft og skylt að skilja undan hv. þingmann ef hann er að fara fram á það, en ég var almennt að ræða um ímynd greinarinnar og þá staðreynd að það eru stjórnarþingmenn, það eru spunameistarar ríkisstjórnarflokkanna, eða alla vega annars flokksins, sem leika þann leik að draga upp þá ímynd að það séu bófar og bandítar innan greinarinnar. Við vitum það báðir, ég og hv. þingmaður, að það er rangt. Í öllum greinum, alveg sama hvort við tölum um útgerðarmenn, dýralækna, presta, lækna eða bændur, eru inni á milli aðilar sem kunna ekki að starfa í því umhverfi sem þeim er skapað. En það þýðir ekki að þær greinar eða starfsstéttir í heild séu settar undir þann hatt að þær séu óalandi og óferjandi. Það er ekki þannig. Ég held að mikið verkefni sé fyrir höndum að koma réttri ímynd sjávarútvegsins á framfæri. Ég held að hagsmunaaðilar (Forseti hringir.) í sjávarútveginum eigi nú svolítið að líta í eigin barm varðandi það.