139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

birting reglna um gjaldeyrishöft.

[14:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt lögunum um gjaldeyrishöft er það Seðlabankans að setja þessar reglur og hann þarf samþykki viðskiptaráðherra fyrst og nú efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir reglunum áður en þær eru gefnar út. Við könnuðum þetta í ráðuneytinu í kjölfar athugasemda lögmannsins og sjáum þess ekki stað að reglurnar hafi ekki verið birtar með réttum hætti. Þvert á móti voru þær birtar fyrst 28. nóvember 2008, síðan 15. desember 2008, síðan 30. október 2009, þá 29. apríl 2010 og svo nú í október 2010 var ákveðið að hafa þær óbreyttar. Sú ákvörðun var borin undir mig og það er eina ákvörðunin sem ég hef komið að í þessu máli, og ég féllst á það að reglurnar yrðu óbreyttar.

Það var ákvörðun sem tekin var formlega og skriflega og sú niðurstaða Seðlabankans hefur verið birt opinberlega að því er ég best veit. Ég átta mig í sjálfu sér ekki alveg á athugasemdum lögmannsins hvað þetta varðar því að við sjáum ekki annað en að þarna hafi verið óslitin rétt birting þessara reglna frá upphafi.

Að sjálfsögðu er það þannig að ef eitthvað er athugavert við reglurnar verður látið á það reyna í dómsmálum, það er auðvitað réttur allra að verja sig með því að bera það fyrir sig ef reglum hefur ekki verið rétt fylgt. Við fáum ekki séð að svo hafi verið.