139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[15:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Eins og hér hefur komið fram hefur ríkt einhugur um að stefna í þessa átt, þ.e. að vera með einhvers konar tilvísanakerfi. Almennt hafa þeir sem tekið hafa þátt í umræðunni verið þess hvetjandi að við stefnum í þessa átt en kannski er ágreiningur um hversu langan tíma við þurfum að gefa okkur í þá vinnu.

Ég tek undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur um að hér er framúrskarandi heilbrigðisþjónusta. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við gleymum því ekki. Við búum við afar gott kerfi og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að verkefni okkar er að viðhalda þjónustunni. Það krefst þess engu að síður að við forgangsröðum, einfaldlega vegna þess að við þurfum að spara í kerfinu á sama tíma. Þetta er vandasamt verkefni. Auðvitað hefði þurft að gera þetta á töluvert lengri tíma en verið er að vinna að núna. Við þurfum að vanda okkur engu að síður og reyna að gera það besta úr því sem aðstæðurnar leyfa.

Ég tek einnig undir að það skiptir mjög miklu máli, sem kom fram í máli málshefjanda, að hugsa ávallt til þess að þjónustan sé veitt á réttum stað, þ.e. að þörfum sjúklingsins sé sinnt á þeim stað þar sem kunnáttan er fyrir hendi. Ég tek undir að við þurfum auðvitað að nýta þá auknu menntun sem er í heilbrigðisstéttum, hjá hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum og öðrum. Það eru gerðar sífellt meiri kröfur. Það er betri menntun í þessu kerfi. Við eigum að nýta okkur það, hvort sem það eru sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar eða aðrir sem vinna í kerfinu, og veita þeim meira umboð til að þjónusta í kerfinu.

Varðandi skýrslur og nefndir treysti ég nú á að hver ný skýrsla skoði allar þær sem áður voru gerðar. Auðvitað er rétt að ekki þarf endalaust að ræða málin, það er meira atriði að komast áfram og fara að taka ákvarðanir. Vonandi verður mótuð stefna í framhaldi af þessari nýjustu skýrslu. Ég mun beita mér fyrir því og reyna að ná sem mestri þverpólitískri sátt vegna þess að ég hef sagt að það skipti miklu máli í málaflokki eins og heilbrigðismálum að menn séu ekki að breyta og skipta um stefnu með hverjum nýjum ráðherra.