140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, ráðherranefnd er komin til starfa í þessu máli og hana skipa Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. Hlutverk hennar er að vera samskiptavettvangur innan ríkisstjórnar og milli stjórnarflokka um efnisatriði þessa máls, um mikilvægustu lykilatriðin sem þarf að fara yfir og samræma sjónarmiðin í. (Gripið fram í: Á sjávarútvegsráðherra ekki aðild að nefndinni?) Að sjálfsögðu mun sú nefnd vinna með sérfræðingum sjávarútvegsráðuneytisins og sjávarútvegsráðherra, eðlilega. Þessi tvö eru hins vegar verkstjórarnir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna tveggja eins og þar er lagt upp með.

Að öðru leyti er það þannig, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn viti, sérstaklega þeir sem kynnu að brenna í skinninu eftir að komast í ríkisstjórn einhvern tímann, að ráðherraskipan er ekki útkljáð í ræðustóli á Alþingi. Það eru þingflokkar sem í fyrstu umferð bera ábyrgð á ráðherrum síns flokks og þeir eru oftast skipaðir að undangenginni tillögu einhvers forustumanns í viðkomandi flokki. Þangað sækja þeir umboð sitt í fyrstu umferð en auðvitað bera menn í samsteypustjórnum upp að vissu marki sameiginlega ábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þannig er það. Slíkt samstarf þarf að ganga upp og byggja á trúnaði og trausti í allar áttir.

Ég mun ekki taka til umræðu úr ræðustóli á Alþingi hluti sem eiga heima á neðri hæðinni, í þingflokksherbergi Vinstri grænna.