140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

kolefnisgjald.

[15:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að tímabært sé að hæstv. ráðherra svari að minnsta kosti einni spurningu skýrt hér á Alþingi í dag sem beint er til hans. Stendur til að falla frá þessum skatti eða á að slá honum á frest? Hæstv. ráðherra er orðinn tvísaga í þessu máli vegna þess að í frétt frá Samtökum atvinnulífsins um fund sem þeir áttu með hæstv. ráðherra kom fram að falla ætti frá þessari skattheimtu, en nú kemur hæstv. ráðherra og talar um að það eigi að slá þeirri skattheimtu á frest.

Það er eðlilegt að við gerum þá kröfu til ráðherra í ríkisstjórninni að þeir svari skýrt hver fyrirætlanin er. Eða eru áformin kannski enn óljós? Er það kannski vegna þess að sumir samfylkingarmenn hafa sagt að þessari hugmynd verði slátrað að hæstv. ráðherra talar með tungum tveim, annars vegar á Alþingi og hins vegar með aðilum vinnumarkaðarins? Það gengur einfaldlega ekki að búa við ríkisstjórn sem getur ekki á einum degi talað einni röddu í svo mikilvægu máli (Forseti hringir.) sem hér um ræðir. Það er því mikilvægt að hæstv. ráðherra, sem hefur skipt um skoðun í málinu núna á sjö dögum, svari okkur því hver stefna ríkisstjórnarinnar er. (Gripið fram í.)