142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

þverpólitískt samstarf um afnám gjaldeyrishafta.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það að setja saman stefnu um afnám hafta er verkefni sem í sjálfu sér er ekkert unnið í eitt skipti fyrir öll, enda hefur afnámsáætlunin verið tekin til endurskoðunar aftur og aftur. Mér finnst mestu skipta í hinu þverpólitíska samráði að menn deili upplýsingum og geri grein fyrir fyrirætlunum. Ég hef alltaf litið á þverpólitísku nefndina sem vettvang þar sem trúnaður þyrfti að ríkja, þar sem menn gætu treyst því að það sem þar færi fram mundi ekki, þegar það ætti við, fara í opinbera umræðu. Það er ekki rétt hjá mönnum að hafa væntingar um að í þverpólitísku nefndinni verði samin ný afnámsáætlun en þar er hins vegar vettvangur til þess að bera hana upp og taka hana til umræðu og fá á hana gagnrýni eftir því sem ástæða er til. Að þessu leytinu til held ég að við munum bara halda áfram þar sem frá var horfið. Lengi framan af var fyrrverandi ríkisstjórn ekki með neitt slíkt samráð.