143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Legið hefur fyrir frá því snemma í sumar að nefnd sem unnið hefur að málinu á að skila í þessum mánuði og mér heyrist að ítrekað hafi verið staðfest að það muni gerast. Ég get ekki annað en staðfest að mér hefur verið sagt að nefndin muni skila í mánuðinum þannig að við eigum ekki að velkjast lengur í vafa um það. Síðan verður stóra spurningin sú hvort hér á þinginu séu menn almennt sammála um að vandinn sé til staðar sem um er rætt og svo verður að láta á það reyna hvort við getum sammælst um leiðir til að takast á við hann.

Flestir eru að því er mér sýnist sammála um að mjög há skuldsetning íslenskra heimila, hvort sem borið er saman við það sem gerist í öðrum löndum eða í sögulegu samhengi hér innan lands, hlýtur að vera okkur áhyggjuefni. Í því sambandi er nærtækt að horfa til þess hversu há skuldsetningin er sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, svo einhver mælikvarði sé tekinn.