144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Húsavíkurflugvöllur.

227. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það svar sem hæstv. ráðherra gaf. Ég verð þó að segja að ég er frekar óþreyjufullur hvað varðar þennan völl sem er utan við grunnnetið og er ekki með samning gagnvart aðflugsvitanum og fjarlægðarmælunum, að það skuli ekki komast á. Þrátt fyrir góð og fögur orð hæstv. ráðherra, bæði nú og fyrir ári, gengur þetta allt of hægt. Það er mikill þröskuldur í starfsemi vallarins hvað þetta varðar.

Hæstv. ráðherra ræddi um grunnflutningsnetið og sagði síðast þegar þetta var rætt að samningur væri milli ráðuneytis og Isavia þetta ár, þ.e. 2014, sem rennur út um næstu áramót. Því vil ég fylgja eftir spurningunni til hæstv. ráðherra: Verður gert ráð fyrir föstum samningum um Húsavíkurvöll í Aðaldal hvað þetta varðar þegar nýr samningur verður gerður fyrir næsta ár?

Því miður er það svo að í tíð þessarar ríkisstjórnar er skorið mikið niður til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, um 31 millj. kr. að raungildi eða tæp 16%.

Hvað hinn þátt spurningar minnar varðar, um að sveitarfélagið komi hugsanlega að þessum rekstri, vil ég taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, ég tók líka eftir því að hæstv. ráðherra sagði „eða aðra þá“. Ég vil segja það alveg skýrt að ég er ekki tilbúinn að þetta fari í einhvern einkarekstur, ég tel það ekki málinu til framdráttar. Hæstv. ráðherra notaði hins vegar sama orð og ég hef oft notað, orðið „samlegðaráhrif“ af rekstri sveitarfélagsins á vellinum. Þeir reka sitt áhaldahús með tækjum til að ryðja snjó eða sjá um viðhald á vellinum eða annað. Þeir geta líka notað starfsmenn sína í turninum o.s.frv. (Forseti hringir.)

Ég tel það einnar messu virði að það sé gert en hvet (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til að lýsa því yfir í næstu ræðu að (Forseti hringir.) samningur um Húsavíkurflugvöll í Aðaldal (Forseti hringir.) verði fastsettur í (Forseti hringir.) næsta samningi við Isavia.