144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Húsavíkurflugvöllur.

227. mál
[16:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get því miður ekki gert það sem hv. þingmaður óskar eftir, þ.e. að lýsa því afdráttarlaust yfir að samningurinn muni verða áfram í gildi á næsta ári. Ég er í þeirri stöðu að fjármagnið sem nú lítur út fyrir að verði til þessara mála í næsta fjárlagafrumvarpi er ekki talið nægja fyrir þessum rekstri í heild sinni, því að við höldum úti öllum þeim ríkisstyrktu flugvöllum sem við höfum haldið úti.

Ég hef greint þinginu frá því að í ljósi þess hafi verið farið fram á að útboði hvað þetta varðar sé frestað fram að áramótum. Til þess að segja hverja sögu eins og hún er þá get ég því miður ekki fullyrt um það frekar en aðra flugvelli. Ég verð að bíða eftir niðurstöðu fjárlagafrumvarpsins til að sjá nákvæmlega hvaða tölu ég hef í hendinni. Mér þykir það jafn sárt, held ég, og hv. þingmanni að geta ekki lokað þeim málum hér og nú. Það er hins vegar hið sanna svar og verður bara að gefa það eins og það er.

Við höfum hins vegar séð kostina í því að halda þessu flugi úti. Við höfum skynjað og vitum af mikilvæginu hvað það varðar fyrir samfélögin og sveitarfélögin á þessu svæði.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi að það fari stundum um hann vegna þess hve ég og hv. fyrrverandi samgönguráðherra séum oft sammála. Það er vegna þess að ég er mjög þakklát fyrir sum af verkefnunum sem ég tek við af honum. Það var ákveðin hugmynd og hugsun í því sem ég er sammála. Ég er hins vegar, og það er ágætt að okkur greinir þó eitthvað á (ÖS: Hvers konar daður er þetta?) — þetta eru bara vinalegar meldingar í garð manns sem sinnti samgöngumálum að ýmsu leyti á sama hátt og ég tel rétt að gera, þannig að það er farsælt. Ég vil hins vegar ganga eilítið lengra, það er því ágætt að við séum ekki sammála um allt.

Ég tel að við eigum líka — ég hvet hv. þingmenn, Össur Skarphéðinsson og aðra hér til þess — að hafa hugfast að það geta líka verið aðrir aðilar í samfélaginu á svona svæðum, t.d. ferðaþjónustuaðilar, uppbyggingaraðilar og aðilar sem koma úr þessum samfélögum og vilja þeim vel sem geta nýst okkur í samstarfi (Forseti hringir.) við uppbyggingu á innviðum.

Ég er reiðubúin til að skoða það. Ég heyri að forsvarsmenn Samfylkingarinnar eru ekki á sama stað, en ég hef einhvern veginn ekkert sérstakar (Forseti hringir.) áhyggjur af því að mér takist ekki að lokum að sannfæra þá. Ég reyni að sannfæra þá um það (Forseti hringir.) eins og annað.