144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

framhaldsskólar.

228. mál
[19:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda þessa umræðu. Við hæstv. ráðherra höfum átt orðastað um þessi mál áður en mig langar samt sem áður að spyrja: Hafa verið fundir nýverið í ráðuneytinu eða eru þeir áformaðir um sameiningu einhverra tiltekinna skóla? Ef svo er, þá hverra?

Ráðherra kemur inn á fækkun nemenda og nefnir tölur um það og kostnað við skóla. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir leiðréttingum, miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir, á nemendaígildum hjá tilteknum skólum, eins og bent hefur verið á, t.d. á Egilsstöðum þar sem er augljóst að er óeðlileg fækkun? Hér er verið að gera svo marga hluti í einu og í raun mikill niðurskurður í gangi þegar kippa á svona mörgum póstum út.

Kostar dreifbýlið meira? Dreifbýlið kostar meira. En hver borgar þá ef nemendur fá ekki nám í heimabyggð sinni eins og verið hefur? Litlu skólarnir úti á landi gjalda fyrir það. Það eru jú nemendur eða foreldrar sem borga.

Mig langar líka til að spyrja í lokin um viðhorf (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til Fjarmenntaskólans.