144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

æskulýðsstarf.

335. mál
[19:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hyggst svara þessum þremur fyrirspurnum í þeirri röð sem þær voru bornar upp.

Í fyrsta lagi er það svo að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum átt mjög gott og farsælt samstarf við æskulýðsfélög og æskulýðssamtök og metur mikils hið óeigingjarna starf sem fjöldi sjálfboðaliða leggur fram. Meðal þess sem ráðuneytið hefur leitast við að gera á undanförnum árum er að halda í horfinu hvað varðar fjárveitingar til Æskulýðssjóðs sem hefur reynst æskulýðsfélögum vel bæði við minni og stærri verkefni. Þá hafa æskulýðslögin sem samþykkt voru á Alþingi árið 2007 komið starfinu vel, styrkt það og mótað um það ramma, m.a. um skyldur þeirra sem starfa með börnum og ungmennum, hvort sem það eru sjálfboðaliðar eða starfsmenn.

Ráðuneytið hefur jafnframt stuðlað að framgangi margra verkefna sem styðja innra starf félaganna. Má þar nefna útgáfu bókarinnar Verndum þau. Þar er að finna mikilvægt efni fyrir þá fjölmörgu sem vinna með börnum og ungmennum í æskulýðs-, félags- og tómstundastarfi um land allt.

Um 3 þús. manns hafa farið á námskeið í efni bókarinnar á um sex árum. Þá hefur ráðuneytið í samstarfi við Námsgagnastofnun og Evrópuráðið í Strassborg látið þýða og gefa út Kompás og Litla-kompás sem eru handbækur fyrir mismunandi aldurshópa barna og ungmenna um lýðræðis- og mannréttindafræðslu. Ráðuneytið hefur einnig lagt áherslu á að styðja æskulýðsfélögin í að koma á aðgerðaáætlunum gegn hvers konar ofbeldi og misrétti. Mörg æskulýðsfélög og æskulýðssamtök hafa sett sér siðareglur og komið upp fagráðum og við þau verkefni hefur ráðuneytið lagt þeim lið sem og Æskulýðssjóður. Ráðuneytið hefur auk þess unnið með Heimili og skóla, Landssambandi æskulýðsfélaga, Æskulýðsvettvanginum, Félagi fagfólks í frítímaþjónustu og Samfés að verkefnum gegn hatursorðræðu á netmiðlum. Allt eru þetta samtök sjálfboðaliða sem vinna með og fyrir börn og ungmenni.

Á föstudaginn var hitti ég um 40 ungmenni úr ýmsum ungmennaráðum sem komu í ráðuneytið og ræddu um þannig orðræðu eins og ég nefndi og hvað hægt væri að gera til að koma í veg fyrir hana eða að minnsta kosti draga úr henni. Einnig ræddu þau um læsi og einelti.

Við 2. spurningunni er þetta svar: Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt um hafa því miður ekki verið tök á að auka framlög til fjölmargra málaflokka frá hruni íslensku bankanna. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að hlífa æskulýðsstarfi við niðurskurði þótt ekki hafi það tekist fullkomlega þar sem niðurskurðarkrafa hefur verið mikil á ráðuneytið á undanförnum árum. Vissulega er mikilvægt að auka framlög og mun ég beita mér fyrir því um leið og færi gefst.

Alþingi styður við heildarsamtök æskulýðsfélaga með fjárframlögum í því skyni að efla þau og tryggja að þau geti unnið að þeim málum sem þau voru stofnuð til að sinna. Þá hefur ráðuneytið gert samninga við stærri æskulýðssamtökin sem starfa á landsvísu sem hafa fengið framlög á fjárlögum. Ráðuneytið þekkir því vel til stöðu þeirra og að þörf er fyrir meira fjármagn til verkefna þeirra. Þá hefur ráðuneytið lagt Landssambandi æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangnum til fjárframlag af safnlið ráðuneytisins og gert við þau samning.

Svar við 3. spurningunni er að þá er til að taka að ráðuneytið styður nú þegar heildarsamtök á sviði æskulýðsmála. Þar sem sveitarfélögin styðja þó ekki beint æskulýðsfélög í hverju sveitarfélagi fyrir sig er það hlutverk sveitarfélagsins þar sem viðkomandi æskulýðsfélag starfar. Æskulýðssjóður var settur á fót með lögum til að styðja verkefni einstakra æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka og hefur sá sjóður verið grundvöllur að starfi margra minni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka vítt og breitt um landið. Hlutverk heildarsamtaka er síðan að styðja við og þjónusta viðkomandi aðildarfélög.

Sem ráðherra þessa málaflokks mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því að hér ríki sem mest jafnræði milli samtakanna. Jafnræði þýðir hins vegar ekki endilega að allir þurfi að fá jafn mikið framlag af fjárlögum hvers árs hverju sinni.