144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

flutningur heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga.

311. mál
[19:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra um viðhorf hans til flutnings heilbrigðisþjónustu sveitarfélaga. Þetta er orðið mikilvægt umhugsunarefni í ljósi ákvörðunar hæstv. ráðherra um að ríkisvæða heilsugæsluna á Akureyri. Það hafa verið umræður um það á vettvangi sveitarfélaganna áratugum saman að æskilegt væri að sveitarfélögin tækju yfir heilsugæsluna. Það hefur verið mörkuð um þetta stefna allra flokka í Reykjavík til dæmis og víða um land hafa menn horft til þessa verkefnis, kjarnaverkefnis fyrir sveitarfélög í framtíðinni. Mörg sveitarfélög hafa óskað eftir að fá að taka yfir heilsugæsluna í tilraunaverkefni.

Menn hafa horft til reynslunnar á Akureyri. Þar hefur verið við lýði heilsugæsla í höndum bæjarfélagsins um langa hríð. Það hefur skilað miklum árangri fyrir samfélagið. Það hefur skilað miklum árangri fyrir samþættingu heilsugæslunnar og félagslegrar þjónustu. Það er alveg öruggt að það hefur tekist betur til við að taka á vanda sem er samþættur félagslegur og heilsufarslegur vandi, oft félagslegur vandi sem gæti þróast yfir í heilsufarslegan, vegna þess að heilsugæslan og félagsþjónustan hafa báðar verið reknar af bæjarfélaginu. Þetta hefur verið kallað Akureyrarmódelið um allt land, öll sveitarfélög horft til þessa. Þetta var til dæmis einn af drifkröftunum í því að okkur tókst að ná samkomulagi við sveitarfélögin á sínum tíma um yfirfærslu þjónustu við fatlaða yfir til sveitarfélaga. Þá lá fyrir að þjónusta við aldraða færi líka í kjölfarið. Við horfum þá jafnframt til þess að tilraunaverkefni gætu einnig farið yfir til sveitarfélaga á sviði heilsugæslunnar. Nú er sem sagt eina tilraunaverkefnið sem var tiltækt horfið og við höfum ekkert sem reynsluverkefni fyrir sveitarfélögin að horfa til.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra vegna þessarar, ég vil kalla það miklu öfugþróunar, þegar verið er að ríkisvæða þessa þjónustu og færa hana fjær fólkinu sem þarf á henni að halda: Hver er afstaða ráðherrans til frekari tilflutnings heilsugæslunnar til sveitarfélaga? Er hann á móti henni? Er hann hugmyndafræðilega á móti þessu?

Ég vil líka spyrja hann: Hvenær telur hann tímabært að flytja þjónustu við aldraða til sveitarfélaga? Það er ekkert því til fyrirstöðu að ganga af krafti í það verkefni. Ég veit af eigin reynslu sem félagsmálaráðherra að þegar þjónusta við fatlaða var flutt til sveitarfélaga skipti mestu (Forseti hringir.) máli að ákveða dagsetninguna, því að menn geta alltaf fundið rök (Forseti hringir.) til að ýta henni á undan sér.