146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum dögum fékk ég sent örvæntingarfullt ákall um aðstoð. Með leyfi forseta vil ég deila því ákalli:

„Þegar kerfið bregst manni algjörlega og maður er skilinn eftir hjálparlaus er eina vopnið stundum að segja frá óréttlætinu. Einhvern veginn hjálpar það líka sálinni.

Ég sæki dóttur mína í skólann á eftir. Loksins!

Að ég fái bara að hitta barnið mitt fjóra daga á móti tíu dögum móðurinnar er svo viðbjóðslega óréttlátt og forneskjulegt að það er þyngra en tárum taki. Dóttir mín er 150% meira hjá móður sinni en mér. Þetta óréttlæti var úrskurðað fyrir þremur árum og svo aftur fyrir einu ári. Þessi skammarlega litla umgengni er ekki eitthvað sem venst heldur verður þetta verra og sárara með hverri vikunni sem líður. Öll börnin koma til okkar á mánudögum, nema eitt. Og fjarvera hennar verður áþreifanlegri með hverri vikunni, mánuðinum og árinu sem líður. Tíminn flýgur nefnilega hjá á meðan ég missi að mestu af æskuárunum hennar. Um daginn missti hún fyrstu tönnina sína hér hjá okkur, í stutta helgarstoppinu sem umgengnin segir til um, og ég fann hvað ég gladdist, trúlega óeðlilega mikið, yfir því að fá að deila þessu mómenti með henni. Það eru nefnilega svo fá slík móment sem við fáum saman. Þessu meingallaða kerfi verður að breyta. Hvernig stendur á því að skilnaðarbörn fá bara ekki að njóta samvista beggja foreldra jafnt? Hvað er hægt að gera andspænis svona óréttlæti? Einhverjar hugmyndir að foreldrajafnrétti?“

Ég vil því vekja sérstaka athygli á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar sem er svar við þessu ákalli og mörgum öðrum. Þar segir með leyfi forseta:

„Kappkostað verði að þjónusta við börn og unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best og að íslenskt samfélag sé barnvænt. Samfélagið styðji ólíkar fjölskyldugerðir og hvetji til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt. (Forseti hringir.) Réttur barna sé tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð.“


Efnisorð er vísa í ræðuna