146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[14:50]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á því að ekki liggur fyrir dagskrá þingfundar á morgun. Ekki liggur fyrir dagskrá þingfundar út vikuna. Þetta gerir það að verkum að í rauninni er ómögulegt að undirbúa sig fram í tímann. Stundum er mikið að gera, stundum er lítið að gera, stundum er mögulegt undirbúa sig aðeins fram í næstu viku. Það væri rosalega jákvætt að hafa aðgang að dagskránni. Maður heyrir stundum út undan sér um hin og þessi mál sem á að taka fyrir og ef maður er heppinn berast fréttir úr forsætisnefnd eða af fundum þingflokksformanna. Ég óska eftir því við forseta að gerð verði tilraun til að undirbúa vikuna og birta fram í tímann. Maður hefur auðvitað skilning á því að það er ekki alltaf mögulegt, það er oft eitthvert kraðak í gangi, en það hlýtur að vera hægt að jafnaði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)