146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að ég er þeirrar skoðunar að við séum á ystu nöf stjórnarskrárinnar hvað varðar framsal valds. Ég hygg að ráðlegt væri að samþykkja breytingarákvæði á stjórnarskránni sem heimilaði takmarkað framsal valds til yfirþjóðlegra stofnana til þess að við værum örugg í þessu samhengi.

Varðandi þau frumvörp sem væntanleg eru um eftirlit með fjármálakerfinu hygg ég að þau séu afar mikilvæg. Ég held að einn af lærdómunum sem við getum dregið af hruninu sé að þá var eftirliti áfátt á mörgum sviðum, ekki aðeins hér á landi heldur um víða veröld. Þau frumvörp sem nú eru að koma inn til okkar á færibandi að segja má eru liður í því að reyna að bæta það verklag sem verið hefur og reyna að koma í veg fyrir að þau ósköp endurtaki sig sem urðu hér þegar fjármálakerfið hrundi.