146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig í dag að valnefnd um hæfi eða nefnd sem falið er að meta hæfi umsækjenda um dómaraembætti er í dag skipuð þremur karlmönnum og tveimur konum, nefnd sem var skipuð reyndar fyrir mína tíð. Stundum er það þannig að í fimm manna nefnd getur verið erfitt að hafa jöfn hlutföll kynja. Þannig að ég hef ekki orðið vör við að þetta vandamál sé til staðar. Ég er heldur ekki sammála þeirri fullyrðingu sem hér er sett fram að karlar velji alltaf karla. Það liggur fyrir að nokkrar konur hafa setið í Hæstarétti og ég árétta enn og aftur stöður dómara við héraðsdómstólana.

Hvað seinni spurninguna varðar um áætlun eða hugmyndir mínar um að breyta lögum um verklag þessarar nefndar þá lýtur það að 4. gr. a gildandi laga um dómstóla sem kveður á um að nefndin eigi að leggja fyrir ráðherra lista yfir umsækjendur þar sem umsækjendum er raðað þannig að einhverjir eru hæfastir og aðrir ekki. Lögin kveða á um að ráðherra sé bundinn af þessu vali um það hverjir eru hæfastir og verði að skipa dómara sem nefndin hefur valið hæfastan. Það hefur verið þannig undanfarið, ekki alltaf, en undanfarið hefur það verið þannig að ráðherra er veitt ákaflega lítið svigrúm, þ.e. ef verið er að skipa í eina stöðu dómara þá hefur kannski einn, mögulega tveir, verið metnir hæfastir. Svigrúm ráðherra er því lítið, þar af leiðandi er svigrúm ráðherra minna til að koma á móts við sjónarmið (Forseti hringir.) sem hér hafa verið reifuð, t.d. um jafnrétti kynjanna.