148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaðan ég fékk dagsetninguna 27. apríl, en mér er mikill léttir að það sé 25. maí en ekki 27. apríl, enda þótti mér heldur vel að sniðið.

Hins vegar er það minn skilningur af kynningu sem ég var á hjá Persónuvernd að ef þetta mundi ekki ganga í gildi hér á tilsettum tíma þá yrði lagalegt misræmi milli EES-landanna og ESB sem myndi þýða að skyldur fyrirtækja í Evrópu gagnvart persónuverndaratriðum og skyldur hér yrðu ólíkar. Það myndi væntanlega hafa þau áhrif að aðilar erlendis eða fyrirtæki sem ætluðu sér að hýsa gögn hér eða eitthvað því um líkt, fremja einhverja upplýsingavinnslu sem auðvitað þarf að vera í samræmi við persónuverndarlöggjöf, myndu veigra sér við það. Það sé ógnin af því að gera þetta ekki á tilsettum tíma.

Að því sögðu eins og ég nefndi í ræðu minni þá hef ég í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að þetta gerist ekki á tilsettum tíma, ég hef bara áhyggjur af því að það takist ekki nógu vel, að vinnan hérna verði gerð í of miklum flýti o.s.frv., eins og við fórum yfir áðan og ég ætla ekki að endurtaka.

Ég ítreka: Frumvarpið átti samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnar að koma fram í janúar, en látum það liggja á milli hluta, við erum búin að ræða það. Liggur eitthvað annað fyrir? Gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að frumvarpið megi bíða á einhvern hátt, eða gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að það sé nægur tími til stefnu til þess að meðhöndla þetta mál eins vel og við eigum að gera almennt?