149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[15:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við getum fullyrt að frá því að fyrsta styrjöldin var háð hefur mannskepnan sýnt fádæma hugkvæmni þegar kemur að því að framleiða drápstæki. Og nú er svo komið að við getum auðveldlega stefnt öllu lífi í hættu með beitingu þeirra. Eftir að okkur varð þetta ljóst, t.d. við árásirnar á Nagasaki og Hírósíma, hefur stór hluti af öryggis- og varnarmálum farið í að viðhalda einhvers konar ógnarjafnvægi. Við höfum ekki lagt næga áherslu á aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir. Annar vágestur hefur raunar læðst aftan að okkur á meðan við höfum verið upptekin við þetta, nefnilega loftslagsváin.

Við stöndum frammi fyrir þremur samtvinnuðum áskorunum: fátækt, ófriði og hlýnun jarðar. Engin þeirra verður sigruð nema allar þrjár verði það í einu. Til þess er engin önnur leið en víðtæk alþjóðleg samvinna. Það verður hvorki gert með því að reisa múra né sperra brjóstkassann og sýna meintum andstæðingum tennurnar.

Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga, nú þegar öfl, jafnvel stjórnvöld í okkar heimshluta, sjá sér enn hag í að sundra og draga í dilka og telja sig best borin með einangrunarstefnu. Við verðum að taka mjög skýra afstöðu gegn því.

Gæðum jarðarinnar er einfaldlega skipt allt of ójafnt. Á meðan helmingur allra barna býr við örbirgð og margir fá hvorki menntun né aðgang að hreinu vatni, á meðan fólki er mismunað eftir litarhætti, kyni eða kynhneigð, eigum við einfaldlega mjög langt í land.

Við Íslendingar eigum því að leggja áfram höfuðáherslu á mál eins og sjálfbæra nýtingu, afvopnun, friðarferli, mannréttindi, kvenfrelsi, baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt og tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Herra forseti. Það er engin önnur leið og við, ríkustu þjóðirnar, berum mjög mikla ábyrgð.