150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[15:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hver þekkir ekki umræðuna um krónu á móti krónu skerðingu? Við stigum það skref í maí sl., þ.e. hæstv. félags- og barnamálaráðherra fór í þá vegferð að reyna að draga úr vægi þessarar skerðingar. Hún er núna 1 kr. á móti 65 aurum. En hvað þýðir það raunverulega? Var vel staðið að því og nógur undirbúningur að því hvaða áhrif þetta myndi síðan hafa á öryrkjana sem nytu þessa góðverks, sem við hefðum mátt ætla að það væri? Það sem hefur gerst er að öryrkjar fengu í ágúst leiðréttingu afturvirkt frá 1. janúar, allt að 200.000 kr. Upphæðin var náttúrlega skattlögð og síðan kom að því að fá skerðingarnar í sambandi við húsaleigubæturnar, húsaleigan hækkaði hjá mörgum þeirra með einu pennastriki um 40.000 kr. á mánuði. Ég nefni dæmi um einstakling með 96.000 kr. í leiðréttingu sem borgar þá 94.000 kr. til baka. Það er verið að gera eins og svo oft áður, virðulegi forseti, það er verið að rétta með hægri og hrifsa til sín með vinstri án þess að sjá hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinginn sem á að fá að njóta. Í þessu tilviki virkar það á mig eins og að kerfin hafi ekki talað saman, eins og að velviljinn sem að baki lá hafi engan veginn verið nógu vel ígrundaður. Mér finnst ekki bragur á þessum vinnubrögðum, virðulegi forseti, og ég spyr hæstv. ráðherra: Gerði hæstv. velferðarráðherra sér grein fyrir því að þetta yrði niðurstaðan, að hér væri á einu bretti litið á þetta sem laun upp á 180.000–200.000 kr. og það væri reiknað með því á einum mánuði en ekki alla átta mánuðina eins og var verið að leiðrétta afturvirkt? Þar af leiðandi er útkoman eftir því með þeim skerðingum sem fólk verður að horfast í augu við frá sveitarfélögunum.