150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann nefndi að þetta hefði að mörgu leyti verið viðkvæmt mál en um leið tel ég að þetta frumvarp þáverandi forsætisráðherra hafi lýst mjög mikilli framsýni. Ég held að við getum öll verið mjög þakklát fyrir að þjóðlendufrumvarpið var lagt fram á sínum tíma þrátt fyrir að mér sé kunnugt um, að sjálfsögðu, heitar tilfinningar margra í kringum landið vegna þess að þetta eru ómetanleg verðmæti sem við eigum sem samfélag, þjóðlendurnar. Ég held að þetta hafi lýst framsýni þáverandi forsætisráðherra sem ég held að muni skipta máli langt fram í tímann fyrir okkur öll.

Það sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins er í raun og veru tæmandi listi yfir þau svæði þar sem við teljum eðlilegt að óbyggðanefnd fái frekari heimildir til að lýsa kröfum. Það er ekki opinn tékki, eins og kom fram í máli mínu, heldur er gerð grein fyrir þeim svæðum og sá listi verður til eftir mjög ítarlega yfirferð á þeim ríflega 25.000 skjölum sem hafa verið undir í vinnu óbyggðanefndar. Síðan er sérstakt ákvæði þar sem sömuleiðis er gefin heimild til landeigenda, hafi þeir einhver slík skjöl fram að færa sem ekki hafa verið lögð fram áður, til þess að lýsa kröfum. Við getum að sjálfsögðu ekki haft neinn lista um það af því að við höfum ekki yfirsýn yfir það ef eitthvað slíkt kann að koma upp. Þetta ætti að svara fyrirspurn hv. þingmanns.

Hvað varðar lóðarréttindi og hvort útivistarfélög, ferðafélög og fleiri slík séu sett í þá stöðu að lóðarréttindi séu auglýst er svarið já, það er svo. Það er auðvitað í anda þess gagnsæis og jafnræðis sem við tölum fyrir. En um leið vil ég vekja athygli á því að eigendastefna ríkisins hefur nú verið birt um þjóðlendur og þar er mjög rík áhersla á að við séum með mjög ströng skilyrði fyrir þeirri starfsemi sem fer fram á þjóðlendum sem ég held að snúist einmitt um að þar geti fólk notið útivistar og ferðalaga, allur almenningur í landinu.