151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér stödd í mestu efnahagsdýfu sem við höfum lent í í 100 ár. Þetta eru hamfarir fyrir ákveðnar atvinnugreinar, ferðaþjónustuna sérstaklega, en mjög margar aðrar greinar um leið. Ég verð að láta það fylgja að þrátt fyrir mjög einbeittan vilja ríkisstjórnarinnar til að brúa þetta bil, sem við teljum að sé í tekjum ferðaþjónustufyrirtækja og margra annarra, með margvíslegum úrræðum, ég gæti nefnt fleira til en ég hef haft á orði hér, ríkisábyrgð fyrir Icelandair er eitt dæmið o.s.frv., þá held ég samt við verðum að horfast í augu við að það getur ekki verið markmið okkar beinlínis að sjá til þess með opinberum aðgerðum að enginn finni fyrir efnahagslægðinni, að við lýsum því einhvern veginn yfir að markmið okkar sé að sjá til þess að allir bjargist. Við getum ekki gert það. Við getum heldur ekki tekið á okkar herðar að leysa úr öllum þeim álitamálum sem eru uppi og þá er ég kannski sérstaklega að vísa til þess að fjármálakerfið hefur mjög ríkar skyldur sömuleiðis og í mörgum tilvikum kröfuhafar, leigusalar og aðrir, hluthafar jafnvel, til þess að gera ráðstafanir.

Hvað sáum við í Icelandairmálinu? Starfsfólkið tók þátt í að höggva á hnútinn. Við þurfum öll einhvern veginn að leggja eitthvað af mörkum. Jafnvel þótt einhverjir muni gefast upp eða sjái ekki fram úr þessum vanda þá held ég að það sé ekki til vitnis um að okkur hafi endilega mistekist. Við þurfum frekar að skoða til hversu margra við raunverulega náðum og síðan getum við gert það upp eftir á hvað við náðum að draga úr efnahagslægðinni með því sem þó var gert.