152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

strandveiðar.

[14:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Útgangspunkturinn í okkar kerfi er alltaf sá að við förum ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það er sá stakkur sem við viljum skera okkur og sá útgangspunktur sem við viljum leggja út af, við sem erum þar stödd í ákvarðanatöku. Þegar að því kemur að í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar dregst saman, í sumar sem leið, stend ég sem ráðherra málaflokksins frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um hámarksafla í þorski á þeim grunni. Þá höfðu þegar verið teknar aðrar ákvarðanir og ég kem sem sagt að því að taka þær ákvarðanir sem enn voru til á borðinu. Þá lækkaði hámarksafli í þorski um 13% og vegna þess að ég legg út frá vísindalegri ráðgjöf varð að breyta þeirri ráðstöfun. Það var ekki hægt að breyta ráðstöfun í skel- og rækjubótum og ekki heldur kvóta Byggðastofnunar þar sem þeim heimildum var úthlutað á skip við upphaf fiskveiðiársins í september síðastliðnum. Það sem stóð eftir voru þeir þættir sem tekin var ákvörðun um að myndu þola skerðingar og það voru annars vegar strandveiðarnar og hins vegar byggðakvótinn. Þarna stend ég frammi fyrir því að þurfa að gera þetta til að falla undir þak Hafró en á sama tíma er rétt að halda því til haga að skiptimarkaðir í nokkrum öðrum tegundum eiga eftir að eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum og þannig mun vonandi og líklega skapast svigrúm til að bæta inn í strandveiðipottinn (Forseti hringir.) vegna þess að ég, rétt eins og fyrri ráðherrar í mínu embætti sem hafa komið frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, stend með því að strandveiðar eru afskaplega góð byggðaaðgerð.