152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

staðan í sóttvörnum.

[14:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Hér setur hv. þingmaður fram þá kenningu að það kunni að vera að fjórðungur smita séu óvirk smit sem komi í ljós á landamærum og heimfærir það upp á þá sem eru í einangrun, og síðan það að það eigi þá við um þá 200 starfsmenn sem ekki eru á gólfinu á Landspítalanum. Þessi kenning hefur ekki verið vefengd eða staðfest, það er það sem ég sagði hér í mínu fyrra svari. Það breytir því hins vegar ekki að við höfum farið í mjög fjölbreyttar aðgerðir með Landspítalanum til að takast á við (Gripið fram í.) mönnun og það hefur tekist með afbrigðum vel. Þannig að það er ekki hægt að setja það í samhengi við það að við höfum ekki tekist á við stöðuna á spítalanum. Hún er þannig að við getum ráðið við það aukaálag (Gripið fram í.) sem felst í því að annast þá sem eru Covid-smitaðir inni á spítalanum.