152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

skerðing í strandveiðum.

[14:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er með svipaða fyrirspurn og var hér áðan varðandi smábátakerfið eða strandveiðarnar. Hún lýtur að ákvörðun ráðherrans um reglugerðarbreytingu frá 23. desember þar sem hann skerti þorskveiðiheimildir til strandveiða um 1.500 tonn. Ég tel rétt að rifja aðeins upp kosningabaráttuna í Norðvesturkjördæmi. Það eina sem framboð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafði fram að færa í því kjördæmi var að þeir vildu efla strandveiðarnar, að þeir ætluðu að gera vel við strandveiðarnar. Það var raunverulega það eina sem var á borðinu þar. Um 1.900 kjósendur kusu þá og fá svo að heyra það núna, og það er orðin staðreynd núna, að fyrsta verk hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að skerða heimildir til strandveiða um 1.500 tonn. Það munar miklu fyrir strandveiðarnar. Ég bara trúi þessu varla, ég trúi þessu ekki enn þá. Þetta eru hrein og klár svik við kjósendur í Norðvesturkjördæmi, höfum það bara alveg á hreinu, og blekkingar líka. Blekkingin er sú að segja við kjósendur í kosningabaráttunni síðastliðið haust að þeir ætli að efla strandveiðar við strendur Íslands, svikin eru reglugerðarbreytingin, svo að það sé algerlega á hreinu.

Strandveiðar hafa reynst hinum dreifðu sjávarbyggðum mjög vel þó að litlar séu. Þetta eru mjög umhverfisvænar veiðar og hafa koma í veg fyrir samþjöppun og spornað gegn samþjöppun sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fjallað um hér rétt áðan að væri mikilvægt að koma í veg fyrir. Þær hafa tryggt og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af. Það hafa líka verið tækifæri fyrir ungt fólk að hefja veiðar.

Spurningin er þessi: Mun hæstv. sjávarútvegsráðherra leiðrétta þann niðurskurð á þorskveiðiheimildum til strandveiða sem ráðherrann ákvað með reglugerðarbreytingu 23. desember og nam 1.500 tonnum?