152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

úthlutun strandveiðiheimilda.

[14:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit svo sem ekki hverju ég hef við þetta að bæta annað en að ég fullvissa hv. þingmann um að hugtakið kvótakerfisflokkur á ekkert sérstaklega við um Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður segir, ég held að við gætum öll oftar nálgast mál þannig að við værum ekki of upptekin af því sem er innskrifaður meiri hluti eða minni hluti miðað við aðkomu að ríkisstjórn. Ég held að við gætum oft leyst málin með farsælum hætti þannig að niðurstaða þingmála gæti endurspeglað í raun og veru strauma og stefnur í samfélagsumræðunni en ekkert endilega fyrir fram ákveðnar niðurstöður á ríkisstjórnarfundum. Þannig að ég er í prinsippinu, eða meginreglunni, virðulegi forseti, algerlega sammála þeirri nálgun. (Gripið fram í.) Ég held að það sé mikilvæg áminning, af því að áðan var verið að ræða um fundarstjórn forseta, fyrir okkur öll alla daga að halda því til haga að ráðherrar eru hér bara í umboði þingsins. (Gripið fram í.)