152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gagnlegt að eiga þessi skoðanaskipti í dag. Við stöndum á enn einum tímamótunum í þessum heimsfaraldri, þ.e. við erum að fá í hendurnar upplýsingar um að þetta nýja veiruafbrigði sem hefur tekið yfir ný smit í landinu hagi sér með öðrum hætti en við höfum hingað til þekkt. Við ákváðum í upphafi að fara varlega en í dag var tilkynnt um að við ætluðum að stíga stórt skref, að draga verulega úr notkun sóttkvíar sem úrræðis til að takast á við veiruna og það eru mjög mikil tímamót.

En á dagskrá hér í þessari umræðu eru efnahagsaðgerðirnar sem eru svona eins og spegilmynd af sóttvarnaráðstöfunum og efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins. Ég heyri að það eru uppi dálítið skiptar skoðanir um hvort við hefðum mátt sníða einstök úrræði með öðrum hætti. Það er sömuleiðis umræða um það hvort sumir hafi borið meira úr býtum en aðrir. Ég vil halda því til haga að við höfum haft gríðarlega mikla þátttöku rekstraraðila sem eru með mjög fáa starfsmenn. Ef við skoðum þetta hlutfallslega eru það fyrirtækin sem eru með einn til fimm starfsmenn sem eru mest áberandi þegar skoðaður er fjöldi fyrirtækja eða rekstraraðila sem hafa nýtt sér úrræðin. Síðan er önnur leið til að skoða þetta að mæla það eingöngu eftir fjárhæðum. Ef við skoðum bara hverjir það voru sem nýttu úrræði stjórnvalda þá er mikill meiri hluti lítil fyrirtæki sem segir mér að við höfum verið að ná til þeirra. Önnur leið til að skoða þessa mynd og spyrja sig um árangur er að skoða stöðuna í fjármálakerfinu. Við tókum það til vitnis um mjög bágborna stöðu heimilanna á sínum tíma eftir fjármálahrunið hversu mikil vanskil heimilin höfðu hjá fjármálakerfinu. Það voru reyndar bara söguleg vanskil. Það var skelfileg staða í raun og veru og eftir öllum venjulegum mælikvörðum hefðum við í raun og veru getað sagt að fjármálakerfið sjálft væri í algjörum kröggum. En það var svo margt sérstakt við þær aðstæður sem þá voru uppi. Það átti eftir að vinna úr þessu öllu saman. Mörgum árum seinna fórum við í skuldaleiðréttingu til að reka smiðshöggið á það. En í dag er allt önnur mynd uppi. Í dag er ekki hægt að sjá á efnahagsreikningum eða rekstrarreikningum fjármálafyrirtækja að hér hafi verið mikil heimskreppa. Þvert á móti eru miklar innstæður, það eru lítil vanskil og það er vöxtur í útlánum. Þetta er það sem ég á við þegar ég segi að víða sé mjög mikill þróttur í hagkerfinu. Í smásöluverslun á Íslandi hefur t.d. verið bara ágætisgangur. En það eru ákveðnir geirar samfélagsins sem eru í sárum og um þá höfum við dálítið verið að ræða í dag og um þá erum við að fjalla þegar við kynnum til sögunnar ný úrræði eða framlengingu eldri úrræða.

Á sama tíma fer fram umræða um það hvernig við sjáum fyrir endann á faraldrinum. Vonandi gerist það hröðum skrefum núna að okkur áfram berist jákvæðar fréttir. Það berast fréttir núna frá Danmörku um að þar standi til að fara í mjög miklar afléttingar hratt og sambærilegar fréttir berast annars staðar frá. Vonandi verður það til þess að við sjáum raungerast vonir okkar um góða viðspyrnu fyrir fyrirtækin, rekstraraðila og þar með heimilin og fjölda starfa í landinu þannig að við getum farið að horfa inn í framtíðina með veiruna fyrir aftan okkur.