152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég trúi því og treysti að hv. þingmaður hafi lesið greinargerðina með hinni upphaflegu tillögu, en þar kemur fram sýn hæstv. ríkisstjórnar á það hvers vegna farið er í breytingar á ráðuneytum. Þar er það dregið fram hvers vegna talið er að þessi uppskipting gagnist í þeirri pólitísku markmiðssetningu sem hæstv. ríkisstjórn fer í með samstarfi sínu. Mér finnst það eðlilegt og í raun ekki skrýtið að stjórn sem þegar hefur starfað saman í fjögur ár sjái hvernig hún geti náð enn meiri árangri með því að breyta uppstokkun ráðuneyta og jafnvel enn frekar en stjórn sem … (ÞKG: Af hverju þá ekki að fækka?) Markmiðið hlýtur alltaf að vera það að ná sem best fram þeim markmiðum sem ríkisstjórn setur hverju sinni. Hér er lagt til að gera það með þessum hætti. Ég held að það eigi eftir að reynast vel. Ég er þeirrar skoðunar að sú leið sem hér er lögð til sé til þess að ná þeim pólitísku markmiðum sem lagt er upp með og til þess þarf stjórnsýslan auðvitað að vera í takti við það. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera með þessari þingsályktunartillögu. Það er yfirleitt þannig að (Forseti hringir.) hægt er að fara fleiri leiðir, en þetta er til að ná fram þeim áherslum sem ríkisstjórn leggur og það skiptir máli. Ég ítreka að ég vonast til að málið verði samþykkt.