152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:51]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir innlegg hans. Ég ætla að deila með ykkur annarri sögu af tengdum vettvangi sem ég starfaði við eftir að ég kvaddi vettvang tónlistar og skapandi greina, sem formlegur formaður eða forystumaður. Ég hef verið viðloðandi þróunarverkefni í heilsutengdri ferðaþjónustu, tók sæti í FHG, sem eru fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu, og það blasti satt að segja við að þar var komin til ný stoð í atvinnulífinu, skyndilega og með miklum hraða orðin stærsta búgrein íslensks atvinnulífs, ferðaþjónustan. Málum var þannig háttað í atvinnuvegaráðuneytinu, þar sem prýðilega vel vinnandi manneskja var með atvinnuvegaráðuneytið, nýsköpunina, orkuna og allt hitt og svo bættust dómsmálin við, að við fundum fyrir því að við vildum hafa varðmann ferðaþjónustunnar í 150% starfi, „full time“, átta daga vikunnar en við vorum í rauninni með starfsmann í kannski sirka 20% starfi í ferðaþjónustugeiranum. Sem betur fer gat umræddur ráðherra valdið sínu hlutverki ótrúlega vel, gerði í raun ótrúlega mikið á skömmum tíma og síðan var dómsmálaráðuneytisskyldunum aflétt af henni, en eftir þessu var kallað. Við töldum að svona spútnikbúgrein, sem skilaði allt að 70 milljörðum í tekjur á árinu 2018 til hins opinbera, ætti betra skilið og við höfum trú á því að það sé í rétta átt sem gert hefur verið núna.