152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er alveg örugglega hægt að gera ýmislegt skilvirkara með því að færa hlutina fram og til baka. Það eina sem ég bið um hérna megin er að þegar talað er um kostnað sé það útskýrt hvað sparast á móti. Það er ekkert slíkt í þessu, það er ekki einu sinni reynt að útskýra hver ábatinn af þessum breytingum er. Það er sagt að þetta muni gera hlutina skilvirkari. Ég hef ekki hugmynd um hvernig. Ég get því ekki lagt mat á það þremur mánuðum seinna eða ári seinna hvort hlutirnir hafi orðið skilvirkari eða ekki. Ég býst kannski ekki við hlutlausri greiningu á því hvort eitthvað hafi tekist eða ekki. En segjum sem svo að sú greining liggi fyrir og niðurstaðan verði sú að hlutirnir gangi ekki alveg. Fáum við þá aðra þingsályktunartillögu um að taka breytingarnar til baka? Það skyldi maður ætla. En ég geri ekki ráð fyrir því af því að ég þekki þessa ríkisstjórn ekki af öðru en að eiga erfitt með að viðurkenna að hún hafi haft rangt fyrir sér.

Hér er verið að tala um tilfærslu á verkefnum. Til dæmis færast mannréttindi og mannréttindasáttmálinn frá dómsmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis. Framfylgd laga og reglna færist frá forsætisráðuneyti til dómsmálaráðuneytis, samlegðaráhrif o.s.frv. Síðan er verið að færa nýsköpun í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið af því að móta þarf skýra stefnu þvert á málaflokka ráðuneyta. Það eru eiginlega sömu rök og er verið að nota til að færa mannréttindamál til forsætisráðuneytisins. Mér finnst það rosalega áhugavert. Sömu rök eru notuð fyrir því að færa tvo mismunandi málaflokka í tvö mismunandi ráðuneyti, af því að það spannar mörg ráðuneyti. Þetta eru smáatriðin sem ég er að reyna að skilja. Já, ég skil rökin (Forseti hringir.) en þau eru ekki nógu nákvæm til að svara því hver ábatinn verður þegar allt kemur til alls. Ég kem úr fjárlaganefnd og hef áhuga á þessum málum.