152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:31]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég held að við getum öll tekið undir það að við viljum sjá vönduð vinnubrögð. Við viljum vanda til verka og við viljum sjá hnitmiðað og við viljum sjá árangur út frá verkefnum okkar, við viljum sjá skilvirkni í kerfinu.

Mig langar, af því að hv. þingmaður vitnar í umsagnir, að vitna í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tekur undir þær breytingar sem lagðar eru fram, þar sem eru dæmi um það þegar byggðamálin fóru úr forsætisráðuneytinu yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið á sínum tíma, þau voru mjög ánægð með þá tilfærslu. Hv. þingmaður nefndi að það sé kannski ekki gott að hafa þetta allt á sama stað. Ég get alveg tekið undir að það er ekki gott að hafa allt á sama stað en sumt er mikilvægt að hafa á sama stað. Breytingarnar núna eru vegna þess að við teljum að mikilvægt sé að fara yfir þetta og endurskoða þetta og hafa tilfærslur í kerfinu til betri árangurs. Ég vona að það verði okkur til hagsbóta.