152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[18:52]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir sína góðu ræðu og mér kemur í hug æðruleysisbænin sem fjallar um það sem maður fær ekki breytt. Þá er viðtekinn málsháttur í guðs eina landi, sem svo er kallað: Það er ekki endilega það sem hendir þig heldur hvernig þú bregst við því og vinnur úr því. Ljóst er að hér blasir við 12 ráðherra ríkisstjórn sem hefur tekið við völdum og við fáum ekki neinu um það breytt. En skynjar hv. þingmaður ekki sóknarfærin sem felast í þessu? Auðvitað er kostnaðarauki sem við blasir og hvernig mætum við honum? Hin heilaga tala 12 með sjálfan Guð-na forseta við mitt kvöldverðarborðið. Í orðaskýringum Gunnars Dal um nafn Íslands segir hann að „land of Isis“ er það sem rís úr sæ. Hvert nýtt land við gosvirkni fær sinn eigin guð, sinn eigin Isis. Þannig verður til orðið „island“. Ísland rís úr sæ og hlýtur nafnið „island“, land æsanna, land guðs. Hér blasa við 12 lærisveinar og sjálfur Jesús við ríkisstjórnarborðið. Er þetta ekki stórkostlegt sóknarfæri í ferðaþjónustu, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson? Stjórn guðs í landi guðs býður yður velkomin frá Ísrael eða kristnu beltunum í Bandaríkjunum? Ég segi að þetta sé gráupplagt.