152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[19:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á þær umræður sem farið hafa fram í dag. Það eru sannarlega skiptar skoðanir á því hvernig skipting ráðuneyta í Stjórnarráðinu eigi að vera. Ég tek undir orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að það sé að sjálfsögðu pólitísk ákvörðun hvernig sú skipting eigi að vera. En mig langar líka að nefna orð hv. þm. Hildar Sverrisdóttur um að þetta hafi verið kjörið tækifæri til að læra af því sem gekk illa á síðasta kjörtímabili þegar sama ríkisstjórn sat, eða a.m.k. sömu flokkar. Maður telur að fólk læri af reynslunni og læri af þeim mistökum sem gerð eru. Mig langar kannski að koma að því aðeins seinna hver ein af þessum mistökum voru og hvernig ekkert er verið að gera í þeim. En áður en við förum þangað langar mig að taka undir orð hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar sem kvartaði yfir því hvers konar form og ferli eru við þetta allt saman.

Lagalega séð erum við einungis að tala um nokkrar línur, sjö talsins, sem í raun segja ekkert annað en hvað ráðuneytin í Stjórnarráði Íslands eiga að heita. Því fylgir svo slatti af blaðsíðum, einar tíu blaðsíður, sem eru greinargerð. En það er nú reyndar þannig að ef mig langar sem hv. alþingismann að gera breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu þá get ég bara leikið mér að nöfnum ráðuneytanna vegna þess að ég get ekki gert breytingartillögu við sjálfa greinargerðina. Það er einmitt í greinargerðinni sem ég sé stóra atriðið sem þyrfti að breyta en það er engin leið, ekkert ferli, fyrir mig að gera þær breytingar. Sannleikurinn er sá að nefndin sjálf gat heldur ekki gert neinar breytingar á þingsályktunartillögunni, aðrar en þær sem snertu nöfnin. Jú, hún gat komið með einhvern texta, um hvað mönnum fyndist, en það hefur ekkert lögformlegt gildi. Og það er hluti af þessu ferli.

Eitt af því sem við á Alþingi reynum að gera er að reyna að auka samráð og samtal við viðeigandi aðila um allar þær breytingar sem við erum að gera. Ef litið er á nefndarálit meiri hlutans má sjá að það voru ansi margir sem komu á fund nefndarinnar og sendu inn umsagnir. En það er kannski þannig að þingmenn hafa ekki kynnst því sem kallast stigi Amsteins. Amstein þessi skrifaði grein um það fyrir tugum ára, mig minnir að það hafi verið í kringum 1950, hvernig samráð gæti verið á mismunandi stigum. Neðst í þessum stiga var einfaldlega alvald, þú hafðir ekkert samráð við neinn, þú gerðir ekkert. En efst í þessum stiga er beint lýðræði. Amstein skilgreindi þrep í þessum stiga þar sem aukið er við það samráð er haft er við það fólk sem ákvarðanir snerta. Það merkilega við stiga Amsteins er að eitt af þessum ferlum er það sem oft er kallað ímyndað samráð. Með öðrum orðum er farið í gegnum það ferli að tala við fólk en það er aldrei ætlunin að hlusta á neitt. Ég tel að ferli þessarar þingsályktunartillögu í gegnum þingið sé nákvæmlega á því stigi.

Þetta ætti svo sem ekkert að koma mér á óvart því ég hef séð svona gerast áður. Ég starfaði einu sinni, um nokkurra mánaða skeið, fyrir eina af stærri deildum Sameinuðu þjóðanna þar sem ég var að leysa af vegna mikilla hamfara sem dunið höfðu yfir víðs vegar um heim. Á þeim tíma var einmitt verið að ganga í gegnum endurskipulagningu á þeirri stóru stofnun. Í stað þess að gera eins og stjórnmálamennirnir hér, þar sem þrír aðilar tóku ákvarðanirnar, var farið í samráðsferli. Borgaðar voru milljónir íslenskra króna fyrir að fá virtan og þekktan ráðgjafa til að koma og ræða við alla, og finna út úr því hvað þyrfti að laga. Starfsmennirnir voru virkilega ánægðir, loksins var verið að hlusta á allar athugasemdirnar þeirra. Samstarfsaðilar, þar á meðal lönd eins og Ísland, voru spurðir: Hverju þarf að breyta? Samstarfsaðilar svöruðu og voru virkilega ánægðir, nú var loksins verið að hlusta á þá. Ráðgjafinn skilaði þá 40 síðna skýrslu um allar þær breytingar sem þyrfti að gera, og ég las þær í gegn og hugsaði bara: Vá, loksins verða Sameinuðu þjóðirnar effektíf stofnun sem getur unnið hratt og vel og gert hluti án þess að vera endalaust í einhverri vitleysu í kringum skrifræði. Skýrslan var svo kynnt og síðan ákvarðanirnar um það hvað ætti að gera. Og já, virðulegur forseti, það var ákveðið að leggja niður eina deild, eina nefnd. Allar hinar hugmyndirnar, allt hitt sem hefði gert hlutina miklu betri — það átti að bíða aðeins með það. Þetta var nákvæmlega sama ímyndaða samráðið og við höfum séð gerast í þessu máli. Fólk trúði því að kannski yrði hlustað á það í þetta skipti. En nei, í raun höfum við á Alþingi aðeins vald til að ákveða hvort hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði kallaður HIN eða VIN í styttingu, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Já, samráð er eitthvað sem svo sannarlega mætti bæta hér á Alþingi og fara nær því að vera með beinna lýðræði eða a.m.k. vera með samráð sem felur það í sér að það sé hlustað.

Mig langar að fara aftur yfir í það sem betur má fara. Við höfum ítrekað séð, ekki bara á síðasta kjörtímabili heldur aftur og aftur og nú síðast í dag, hve illa er haldið utan um mál útlendinga og mál hælisleitenda. Við höfum bæði núverandi og fyrrverandi ráðuneyti dómsmála og innanríkismála sem greinilega er með stofnanir og starfsfólk sem er ekki að gera það sem lög kveða á um að það eigi að gera. Maður hefði haldið að slíkt hefði ratað inn í breytingar á Stjórnarráðinu. En nei, það mátti ekki hræra í því vegna þess að þarna er bara um að ræða einhverja útlendinga. Við þurfum að geta hugsað um fólk, sama hvaðan það kemur, og við þurfum að geta veitt því mannsæmandi meðhöndlun og tryggja að mannréttindi þeirra séu jöfn okkar. Þarna er um að ræða fólk sem oft hefur gengið í gegnum skelfilega hluti til að komast hingað.

Mig langar að nefna aðeins hvers konar hluti fólk sem hingað kemur hefur gengið í gegnum og mætir þá skrifræði og ólöglegri meðhöndlun. Mig langar til að nota tækifærið til að segja eina eða tvær sögur af fólki, en það er ekki fólk sem er í ferli hér í augnablikinu. Kannski endar það hér, við eigum eftir að sjá það. Þetta er fólk sem lifir í þeirri von að finna sér stað þar sem er friður og þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð. Mig langar að segja ykkur frá henni Söru. Sara flúði heimaland sitt á Fílabeinsströndinni og fór til Líbíu í von um að komast til Evrópu. Sara er ein af þeim heppnu vegna þess að í æsku varð hún ekki fyrir því að vera umskorin eins og tíðkast í heimalandi hennar. En eftir að hún giftist ung að árum og nýja tengdamóðir hennar komst að því varð allt brjálað. Hrædd um að vera neydd í umskurð flúði hún til foreldra sinna en faðir hennar henti henni út og fór með hana til tengdaforeldranna. Þar varð hún fyrir miklum barsmíðum og notaði fyrsta tækifærið til þess að hlaupa út og flúði þaðan að landamærunum til Malí. Hún eyddi nokkrum mánuðum í Malí áður en hún lagði land undir fót og fór til Líbíu í gegnum Alsír. Stuttu eftir komuna til Líbíu var Sara handtekin og sett í fangelsi í úthverfi Trípólí. Í fangelsinu nauðguðu fangaverðirnir Söru á hverjum degi, allt þar til hún fæddi son þann 26. mars 2020. Það voru samfangar hennar sem tóku á móti barninu og þegar fangaverðir sáu barnið var henni hent út úr fangelsinu ásamt syni sínum. Í dag býr Sara í einu úthverfi Trípólí ásamt 36 öðrum konum og sjö ungum börnum. Hún og konurnar reyna hvað þær geta til að safna sér fyrir bátsferð yfir Miðjarðarhafið en slík ferð kostar 200.000 kr. íslenskar, nokkuð sem er nær ómögulegt fyrir unga konu eins og Söru að safna sér fyrir. Ég vil frekar deyja í Líbíu en að fara aftur heim, sagði Sara grátandi við starfsmenn hjálparsamtaka sem hittu hana. Það eru konur eins og Sara sem við eigum að taka á móti hér og við eigum að veita þeim örugga framtíð. Við erum ríkt land og við eigum ekki að vera með stofnun sem lítur á sjálfa sig sem útvörð íslenska velferðarkerfisins, stofnun sem segir að hún sé þar til að stoppa það af að Ísland fyllist af fólki.

Þetta er eitt af því sem hefði átt að laga í nýrri stjórnskipan Stjórnarráðs Íslands, en það var ekki gert. Í staðinn var ákveðið að fjölga ráðuneytum. Í staðinn var ákveðið að eyða miklum peningum til þess eins að friðþægja einn stjórnmálaflokk sem þurfti fleiri ráðuneyti. Á sama tíma og við bendum á þessi mál vitum við ekki hversu mikið þessi þingsályktunartillaga, sem í raun er ekkert annað en nafnalisti yfir ráðuneyti, mun kosta okkur.