152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvarið og fyrir tækifærið til að tala aðeins meira um þessa setningu. Þetta er auðvitað setning sem hefur svolítið verið rædd við meðferð þessa máls og skal kannski engan undra. Eins og ég nefndi áðan, og ég stend við það, þá er það eina sem hefur komið fram, bæði í umræðu þegar forsætisráðherra flutti málið og í umsögnum og hjá gestum og svo núna í dag, um hina ósýnilegu múra stofnanamenningar þegar gestir nefna hjá nefndinni að eitthvert slíkt sé til eða það er talað um það í umsögnum. Það hefur ekki komið neitt frá meiri hlutanum, og þá er ég að tala bara um sértæk dæmi, um það hvar múrarnir eru, hvers eðlis þeir séu og hvernig best sé að rífa þá niður. Það er hins vegar mikið talað um að það eigi að stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins, en því fylgir kannski ekki neitt sérstaklega mikil útskýring. Þessi greinargerð er, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson nefndi reyndar, náttúrlega bara eins og eitt stórt áramótaávarp að mörgu leyti. Það verður eiginlega að segjast. Ég er ekkert að reyna að vera leiðinlegur með því að nefna það. Uppáhaldssetningin er þessi:

„Nýtt ráðuneyti kemur til með að styðja við umhverfi nýsköpunar þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín, dafna og vaxa í opnu og frjálsu samfélagi nýsköpunar og samkeppni.“

Þetta er eins og texti í einhverri bankaauglýsingu fyrir hrun frekar en rökstuðningur í greinargerð og það á auðvitað líka við um þessa setningu sem hv. þingmaður benti á hérna áðan. En svona er þetta. Þetta er það sem við höfum að vinna með. Ríkisstjórnin kýs að fara þessa leið. Verði henni að góðu, hennar verður ábyrgðin.