154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

viðbragðsáætlun og framkvæmdir vegna eldgoss.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni. Nú er það svo að tillagan þarf auðvitað að liggja fyrir og yfir hana þarf að fara áður en ákvörðun er tekin. Það hlýtur að blasa við öllum. Eins og ég nefndi hér áðan þá er auðvitað ljóst að sú virkni sem er núna er ekki bara nálægt orkuveri, sem getur haft gríðarleg áhrif ef það fer úr virkni, heldur líka, og ég kom að því áðan, hitaveitu eða heita vatninu og líka varðandi rafmagnsframleiðslu. Það er þegar búið að undirbúa ákveðnar bráðaaðgerðir til að bregðast við því. En síðan er það auðvitað byggðin í Grindavík. Þetta eru stóru póstarnir sem þarf að tryggja í öllum okkar aðgerðum. Það liggja auðvitað fyrir rýmingaráætlanir og ég vil aðeins nefna björgunarsveitirnar. Við höfum verið í mjög góðum samskiptum við björgunarsveitirnar á svæðinu, reynt að styðja bæði Landsbjörgu en líka sérstaklega þessar sveitir sem hafa verið undir miklu álagi. Hvað varðar náttúruhamfaratryggingar þá vil ég segja að þær hafa auðvitað verið í miklu samtali (Forseti hringir.) við íbúa á svæðinu, nú síðast í gær, að ég tel, á íbúafundi. En ég vil nota tækifærið hér í lokin og segja að ég tel að allir aðilar í kerfinu séu að vinna með samstilltum hætti að þessu erfiða ástandi.