154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

staða heyrnarskertra og skortur á heyrnarfræðingum.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Já, það hefur verið vinna í gangi með forstöðumanni og forráðamönnum HTÍ um að efla mönnunina og það þarf að taka upp nám bæði heyrnarfræðinga í samvinnu við háskólana og háskólaráðherra. Fyrir nokkru fól ég landsráði að vinna að því með forstöðumönnum og það er samvinna við háskólann um að taka upp slíkt nám í samvinnu við sænskan háskóla í Örebro, bakkalárnámi í heyrnarfræði, og jafnframt í heyrnartæknifræði við Ármúlaskóla og ég vonast til að það geti bara hafist um áramótin. Það er miður að það var ekki hægt að taka þessa tvo nemendur inn í haust, það kom ekki beint inn á mitt borð.

Síðan varðandi fjármögnun þá er ég að sækja um 160 milljónir í fjáraukalagafrumvarpi til að mæta þessum halla sem er uppsafnaður og er fyrst og fremst kominn til af hagræðingarkröfu undanfarinna ára. (Forseti hringir.) Því þarf að mæta og er inni tillaga í fjáraukalagafrumvarpi um slíkt.