154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

launaþróun á Íslandi.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Daða Má Kristóferssyni fyrir fyrirspurnina. Það er í fyrsta lagi vissulega rétt að áhersla verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum við kjarasamninga hefur verið á að hækka lægstu launin. Sú áhersla hefur í raun og veru verið ráðandi a.m.k. átta ár aftur í tímann sem hefur skilað því að tekjur þeirra hópa hafa hækkað og munurinn minnkað. Við getum auðvitað rætt það hvenær okkur finnst tekjujöfnuður orðinn nægjanlegur á Íslandi, því að hann er vissulega mjög mikill, m.a. vegna þessarar áherslu verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum.

Hefur það svo þau áhrif að ekki verður nægur hvati til að mennta sig, eins og hv. þingmaður nefnir? Ég vil í fyrsta lagi segja að auðvitað sækjum við okkur ekki menntun bara til að hækka laun. Það er svo margt annað sem fylgir því að sækja sér menntun sem snýst einfaldlega um aukin lífsgæði og lífskjör sem ekki verður eingöngu mælt í launum.

En hvað hafa stjórnvöld gert til að efla verðmætaskapandi greinar? Það er kannski það sem upp úr þessu stendur. Ég vil nefna að hér hefur verið rekin mjög markviss stefna allt frá árinu 2009 til að styðja betur við nýsköpunargeirann og þekkingariðnaðinn og hún hefur skilað árangri. Hún hefur skilað þeim árangri að þekkingargeirinn hefur vaxið sem útflutningsgrein á Íslandi allt frá því að fyrstu lögin voru sett um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar sem hefur sem betur fer verið ákveðin þverpólitísk samstaða um. Á sama tíma hefur líka aukist stuðningur ríkisins við hinar skapandi greinar þannig að ég myndi nú telja að sú stefnumótun hafi borið árangur í því að skapa hér þekkingarsamfélag, sem hv. þingmaður spyr um. Hins vegar erum við á þeim stað að hér hefur orðið mikil fólksfjölgun og fyrst og fremst falist í því að hingað hafa margir flutt þannig að nú er hlutfall íbúa af erlendum uppruna yfir 18%, nálgast 19%. Það er auðvitað hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði.