154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:24]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Það er jákvætt að utanríkismálanefnd hafi komið sér saman um þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér í dag við 1. umræðu. Ég tók virkan þátt í þeirri vinnu fyrir hönd Framsóknarflokks og vil þakka formanni utanríkismálanefndar og nefndarmönnum fyrir samvinnuna á undanförnum dögum.

Ísland hefur rödd á alþjóðavettvangi og við eigum að nýta hana. Alþingi er æðsta stofnun landsins og sameiginleg yfirlýsing sem þessi skiptir máli. Í þingsályktunartillögunni felur Alþingi ríkisstjórn að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsókna á brotum á alþjóðalögum. Við eigum að gera það sem við getum til að hafa áhrif. Ég fagna vissulega því að ríkisstjórnin hafi nú þegar hækkað framlag sitt til mannúðaraðstoðar en við getum gert enn betur.

Virðulegi forseti. Ég var staddur á fundi þingmannanefndar NATO-þingsins í Danmörku þegar fregnir bárust af árásum Hamas þann 7. október. Ofan í umræðu um árásarstríð Rússa í Úkraínu og hörmungar sem þar fara fram bættist enn einn hildarleikurinn sem við sjáum ekki fyrir endann á. Sem von var breyttist tónninn á þeirri samkomu og æ síðan hefur verið kallað eftir því að farið sé að alþjóðalögum og fordæmdir þeir skelfilegu atburði sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum. Ofbeldisverkin sem framin voru og átökin í kjölfarið hafa leitt af sér óendanlegar hörmungar. Í gær sakaði mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna stríðandi fylkingar um stríðsglæpi.

Virðulegi forseti. Blóðbaðið verður að stoppa. Í þingsályktunartillögu Alþingis er kallað eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo að tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir einnig öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum, bæði í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og ekki síst verndar borgaralegra innviða. Í senn fordæmum við hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara Ísraels og fordæmum sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum. Ljóst er að óheyrileg þjáning, manntjón og mannfall er gríðarlegt.

Ég hef nefnt það hér að mikilvægt sé að rannsaka hvort stríðsglæpir hafi verið framdir. Í mínum huga er það mikilvægt verkefni og við Íslendingar eigum að beita okkur fyrir því. Ég tel mikilvægt að nefna að með þingsályktunartillögu utanríkismálanefndar vilja flutningsmenn tryggja að afstaða Íslands vegna yfirstandandi hörmunga sé skýr og njóti stuðnings allra flokka á Alþingi. Áður hefur utanríkismálanefnd og Alþingi allt komið saman í svo stórum og veigamiklum málum og er þar mikill bragur á og vel gert. Flutningsmenn ítreka einnig mikilvægi þess að allir hlutaðeigandi aðilar fylgi skuldbindingum sínum og að tryggt sé að við séum m.a. að vernda hjálparstarfsfólk sem í óeigingjörnu starfi sínu reynir að bregðast við þeim hörmungum sem liggja fyrir. Við þurfum að tryggja tafarlausan aðgang að nauðsynjavörum og óhindraðan aðgang stofnana Sameinuðu þjóðanna til að hjálpa fólki í neyð.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að ég hef verulegar áhyggjur af stigmögnun á svæðinu, rétt eins og kemur fram í þingsályktunartillögu Alþingis hér. Það hefur verið leitað allra leiða til að slíkt eigi sér ekki stað. Við Íslendingar eigum einnig að nýta rödd okkar til að ná til nágrannaríkja og þeirra sem eru að ganga þann veg að reyna að stilla til friðar og koma í veg fyrir enn frekari átök. Um leið og við Íslendingar fordæmum ofbeldi með skýrum hætti verður að leita leiða að friðsamlegri lausn. Um langt skeið, margra áratuga skeið, hefur verið talað fyrir tveggja ríkja lausn á svæðinu. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur til að mynda margítrekað þá áherslu og í ræðu sinni í tilefni af alþjóðlegum samstöðudegi með palestínsku þjóðinni 2019 sagði hann, með leyfi forseta:

„Réttlát og varanleg lausn mun einungis nást með uppbyggilegum viðræðum milli deilenda og í góðri trú. Þörf er á stuðningi alþjóðasamfélagsins við lausn sem verður að vera í samræmi við löngu samþykktar ályktanir Sameinuðu þjóðanna …“

Við Íslendingar höfum lengi verið á þessari skoðun. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna nýverið nefndum við mikilvægi tveggja ríkja lausnar. Það segir í ræðu okkar fulltrúa, herra forseti, með leyfi:

„Við verðum að brjótast út úr þessum vítahring ofbeldis og vinna að varanlegri pólitískri lausn. Alþjóðlegu viðmiðin fyrir sjálfbæra langtímalausn deilunnar eru skýr: Tveggja ríkja lausn sem byggir á alþjóðalögum, þar sem Ísrael og Palestína búa hlið við hlið í friði og öryggi og við gagnkvæma viðurkenningu.“

Nú er staðan sú, herra forseti, að 1.400 manns létust í árás Hamas á Ísrael og yfir 10.000 manns hafa látist á Gaza-svæðinu á undanförnum vikum. Engin orð fá lýst þeim hryllingi. Áhrifin af átökunum hafa teygt anga sína um allan heim. Hatursglæpum í Frakklandi, Spáni og víðar í Evrópu hefur fjölgað, hatursorðræða hefur aukist til muna á netinu á undanförnum vikum, í garð múslima og gyðinga, og svo má lengi telja. Og þó að einhverjar fregnir berist og einhver veik von sé fyrir því að unnið sé að vopnahléi gegn lausn gísla hefur það ekki raungerst enn. Það er mín von að brátt sjáum við vopnahlé á Gaza.

Virðulegi forseti. Ég er stoltur yfir framgangi íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum sínum en hér er Alþingi að sameinast um mikilvæga þingsályktunartillögu sem allir flokkar koma að. Við eigum að tala skýrt. Vissulega er samúð mín með óbreyttum borgurum í þessum hildarleik gríðarleg en samúðin ein kemur ekki vopnahléi á. Við verðum að stíga fast til jarðar og við verðum að beita okkur áhrifum til þess að vopnahlé náist af mannúðarástæðum.

Ég styð þessa tillögu, herra forseti, og vænti þess að þingheimur í heild sinni geri það einnig.