154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég ætla hér að gera grein fyrir bókun sem ég gerði við umræðu um þetta mál í utanríkismálanefnd og svo hugsanlega skýra hvert atriði í fáeinum orðum í framhaldinu. Bókunin er svohljóðandi:

„Undirritaður er aðili að tillögunni með hliðsjón af eftirfarandi skilningi:

Að með orðalaginu „vopnahlé af mannúðarástæðum“ sé átt við það sem kanadísk stjórnvöld kölluðu „humanitarian pause“ í skýringum á tilvísaðri tillögu þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þ.e. tímabundið hlé á átökum til að liðka fyrir mannúðaraðstoð á Gaza-ströndinni.

Að krafan um tafarlausa lausn gísla sé sett fram í samhengi við kröfuna um mannúðarhlé.

Að með tillögunni sé viðurkenndur réttur Ísraels til sjálfsvarnar með tilliti til alþjóðalaga.

Að með vísan til mikilvægis þess að alþjóðalögum sé fylgt sé m.a. átt við kröfu um að Hamas nýti ekki óbreytta borgara sem mannlega skildi eða meini þeim að leita skjóls með blekkingum, þvingunum eða öðru ofbeldi.

Að tryggt verði að aukaviðbótarframlag til aðstoðar á svæðinu verði ekki að stuðningi við Hamas.

Að orðalagið „óheftur aðgangur mannúðaraðstoðar“ feli ekki í sér eftirlitsleysi með því sem flutt er inn á Gaza-ströndina eða því að aðstoðin skili sér til þeirra sem eiga að njóta hennar.“

Frú forseti. Það er að mínu mati mikilvægt að halda því til haga að Hamas-hryðjuverkasamtökin eru ekki vinir Palestínumanna og stuðningur við almenna borgara í Palestínu, hvort sem það er á Gaza-ströndinni eða annars staðar, fer ekki saman við stuðning eða skilning gagnvart Hamas eða hryðjuverkum þeirra. Þvert á móti, Hamas-samtökin svífast einskis, hvorki gagnvart Ísraelum, eins og kom glögglega í ljós með hryllilegri hætti en maður hefði getað ímyndað sér þann 7. október, né gagnvart eigin fólki, gagnvart Palestínumönnum. Við höfum séð það ítrekað í aðdraganda þessara mála og í mörg ár að Hamas-samtökin níðast á íbúum Gaza, stjórna þar eins og glæpasamtök sem auk þess eru hryðjuverkasamtök, stela öllu sem þau komast yfir frá íbúum svæðisins á meðan leiðtogar Hamas búa allt annars staðar, í Katar eða London eða á öðrum stöðum, og hafa sankað að sér gríðarlegum auðæfum, sumir hverjir upp á milljarða dollara, á meðan fólk í Gaza-ströndinni, sem þeir þykjast tala fyrir, líður miklar hörmungar.

Þess vegna tel ég mikilvægt að undirstrika það að samhliða fordæmingu á ofbeldi gagnvart almennum borgurum þá fordæmum við þær aðferðir sem Hamas hefur beitt með því að meina fólki að flýja, leita skjóls, í þeim tilgangi í fyrsta lagi að verja sjálfa sig, forðast að verða fyrir árásum Ísraela og, gangi það ekki eftir, til að sem flestir falli til að auka réttlætingu á málstað Hamas. Það er mikilvægt að við leyfum þeim ekki að komast upp með slíkt. Höfum í huga að þegar reynt er að vara almenna borgara við er þar með verið að reyna að koma í veg fyrir mannfall en þegar þessum sömu almennu borgurum er meinað að forða sér þá er verið að reyna að stuðla að mannfalli. Við þurfum að hafa þetta í huga vegna þess, eins og ég nefndi hér, að stuðningur eða afsakanir fyrir Hamas-hryðjuverkasamtökin eru andstaða stuðnings við óbreytta borgara í Palestínu.

Við þurfum líka að hafa hugfast þegar við aukum framlög vegna mannúðaraðstoðar hversu mikilvægt það er að tryggja að þau skili sér til fólksins sem þarf mest á þeim að halda en verði ekki gerð upptæk eða stolið af Hamas. Þess vegna er getið sérstaklega um mikilvægi þess að fylgjast með því hvað verður um stuðning Íslands þarna inni á Gaza-ströndinni og eins að það verði fylgst með flutningum þarna inn, að það sé ekki verið að smygla inn vopnum eða hætta á að hryðjuverkasamtökin einfaldlega geri allt upptækt sem á að berast til óbreyttra borgara.

Ég ætla líka að nota tækifærið, þó að það kunni að hljóma eins og verið sé að drepa málum á dreif, en mér finnst það mikilvægt samhengisins vegna að minna á að við höfum að undanförnu horft upp á hörmungar víða í heiminum sem hafa þó ekki fengið sömu athygli og ástandið á Gaza-ströndinni. Þar er sums staðar um að ræða átök sem hafa kostað jafnvel hundruð þúsunda mannslífa. Þar má nefna Jemen, þar sem Íran annars vegar og Sádi-Arabía hins vegar halda úti hryllilegu stríði og fólkið í því landi líður fyrir vikið ótrúlegar þjáningar, það má nefna að nú bara fyrir fáeinum dögum voru framin fjöldamorð í Darfúr þar sem hundruðum var slátrað án þess að það vekti mikla eftirtekt alþjóðasamfélagsins, það er verið að reka milljónir flóttamanna burt frá Pakistan til Afganistan og svo mætti lengi telja. Við þurfum því Alþingi Íslendinga, sem hér gerir sína afstöðu ljósa, að minnast þess að hörmungarnar eru víða og ef við teljum að okkar ályktanir skipti einhverju máli þá ættum við að huga að því að það er víðar sem ástæða er til að við gerum hug okkar ljósan. Um 120.000 Armenar voru reknir frá Nagornó-Karabak af Aserum og varla sagt frá því, eða mjög takmarkað, í íslenskum fréttum. Þetta nefni ég upp á samhengi hlutanna. Við megum ekki gleyma öllu því sem við ættum að vera með augun á og hugann við og hugsanlega ályktum, ef við teljum að ályktanir Alþingis veki athygli, og einbeita okkur eingöngu að einum vettvangi, eins hrikalegar og aðstæður eru þar.

Loks vil ég nefna mikilvægi þess að við leitumst við, þá er ég ekki bara að tala um okkur þingmenn heldur fólk almennt, að varast falsfréttir af þessum átökum því að eins og þekkt er er sannleikurinn gjarnan fyrsta fórnarlamb stríðs. Við getum ekki treyst á hryðjuverkasamtök sem helstu fréttaritara af gangi mála. Það var í rauninni skrýtið að sjá hvernig Hamas fóru beint úr því að slátra 1.400 manns og taka hundruð gísla í það að verða einhvers konar fréttaritarar vestrænna fjölmiðla á Gaza-ströndinni. Úr hvorri áttinni sem upplýsingarnar koma er mikilvægt fyrir okkur þingmenn og allan almenning að gæta varúðar og reyna að leita réttra og áreiðanlegra upplýsinga eins og nokkur kostur er en það er auðvitað erfitt við aðstæður eins og þessar.