154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að hefja mál mitt á því að þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir að flytja þá tillögu sem hér er til umræðu og ég gleðst yfir því að Alþingi Íslendinga skuli standa undir nafni og ná saman um ályktun sem þessa. Ég geri mér grein fyrir að hefði ég skrifaði hana ein þá hefði hún kannski verið orðuð með öðrum hætti, en það skiptir máli að röddin héðan heyrist skýrt og hún fari víða.

Ég vil hefja mál mitt á því að rifja upp hina pólitísku og siðferðilegu ábyrgð sem Ísland og Íslendingar bera bæði á tilvist Ísraelsríkis og ekki síður á stuðningi við sjálfstæði Palestínu. Þar höfum við í gegnum áratugina, síðastliðin 75 ár, markað okkur djúp spor í alþjóðasamfélaginu og á alþjóðlegum vettvangi. Og þó að við séum smáþjóð þá höfum við rödd og við höfum atkvæði og það skiptir máli hvað við segjum, það skiptir máli hvernig við segjum það og það skiptir máli hvernig við greiðum atkvæði á alþjóðavettvangi og hjá alþjóðlegum stofnunum eins og hér hefur ítrekað verið farið yfir í þessari umræðu. Ísland hefur hlutverki að gegna og við eigum að taka það alvarlega og við eigum að sjálfsögðu að beita okkur fyrir friði og við eigum líka að axla ábyrgð á því að stuðla að friðsamlegum lausnum. Það krefst pólitískrar framsýni en það krefst líka þess að við tökumst á hendur verkefni sem eru kannski bæði óþægileg og flókin. Það hafa aðrar þjóðir gert og það getum við gert.

Ég ætla ekki að nýta tíma minn hér í að rekja það sem fram hefur farið í liðnum mánuði. Hv. þm. Logi Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, gerði það í góðri ræðu hér áðan. Ég vil að við horfumst í augu við það að Palestína og Ísrael eru í klóm öfgaafla, hvort ríki um sig. Hamas er öfgahreyfing, hryðjuverkamenn sem létu til skarar skríða svo um munaði 7. október síðastliðinn og hafa ráðið ríkjum á Gaza frá 2006. Ríkisstjórn Benjamins Netanyahus er samansafn hægri öfgamanna og bókstafstrúaðra gyðinga sem hafa staðið fyrir landráni á Vesturbakkanum aðallega en þó víðar og kynt undir ofbeldi og óstöðugleika í ísraelskum stjórnmálum. Þar ætla ég ekki að fara að ræða um tillögur þeirra um að grafa undan dóms- og réttarkerfinu í Ísrael en viðbrögðin við þeim hafa þó sýnt að í því góða landi býr lýðræðiselskandi fólk.

Það er mikilvægt að setja hlutina í samhengi og það dregur ekki úr hryllingi þess sem fram hefur farið, hvorki af hálfu Ísraels né Hamas, að setja aðstæðurnar fyrir botni Miðjarðarhafs í sögulegt samhengi. Þær eru það og þær verða aldrei teknar úr því — þær verða aldrei teknar úr því. Þær verða aldrei teknar úr samhengi Nakba 1948, þær verða aldrei teknar úr samhengi stríðanna og hernámsins og þær verða heldur aldrei teknar úr samhengi þess sem fram hefur farið á hernumdu svæðunum síðastliðin 20–25 ár og allt frá því hafa öfgaöfl innan Palestínuhreyfingarinnar og innan Ísraels gert allt sem í þeirra valdi stendur til að grafa undan tveggja ríkja lausninni — allt sem í þeirra valdi stendur til að grafa undan tveggja ríkja lausninni.

Ef Ísland ætlar að beita sér af þunga og pólitískri ábyrgð á alþjóðlegum vettvangi þurfum við að ganga fram fyrir skjöldu og beita okkur fyrir tveggja ríkja lausn og friðsamlegri lausn og leggja það á okkur sem þarf til að það verði. Ég tel að þessi ályktun geti verið skref í þá átt að við hér stöndum saman um það að Ísland haldi áfram að setja mark sitt þannig að við stuðlum að friði, að við stuðlum að sjálfstæði Palestínuríkis, að við stuðlum að lýðræðislegri þróun fyrir botni Miðjarðarhafs og við gerum okkur um leið fulla grein fyrir því hvaða stórveldi standa að baki því sem gerst hefur á síðustu áratugum. Gerum okkur grein fyrir stöðunni um öll Miðausturlönd, fyrir valdabaráttunni á milli Íran og Sádi-Arabíu, fyrir áhrifum borgarastyrjaldarinnar og hrunsins í Sýrlandi, fyrir áhrifum þess að Líbanon er við það að hrynja sem ríki. Setjum hlutina í stóra samhengið og setjum þá líka í það samhengi hverjir fjármagna stríðin sem fram fara fyrir botni Miðjarðarhafs — hverjir fjármagna þau, hverjir framleiða vopnin, hverjir selja þau og hverjir í rauninni græða á því að þetta ástand viðhaldist áratugum saman.

Hér verðum við að stíga inn og standa undir nafni sem friðelskandi þjóð og krefjast þess ekki bara eins og stendur í ályktuninni, að það verði tafarlaust vopnahlé á Gaza og að við reynum að endurreisa líf þess fólks sem orðið hefur fyrir öllu þessu sturlaða ofbeldi á síðasta rúma mánuði, stöndum undir því. Tökum réttu skrefin. Þessi ályktun er ágætt fyrsta skref en atburðir síðasta mánaðar í Ísrael og á Gaza-ströndinni og á Vesturbakkanum eru þess eðlis að við verðum — við verðum að beita okkur á alþjóðavettvangi. Við verðum að stíga inn sem frjáls og fullvalda þjóð og standa undir nafni sem slík og gera það sem við getum til að stuðla að friði.