154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:18]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í dag þingsályktunartillögu um afstöðu Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, tillögu sem öll utanríkismálanefnd kom sér saman um í gær, sem er gott og styrkir afstöðuna. Ég vil strax í upphafi ræðu minnar taka undir höfuðáherslu utanríkismálanefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Utanríkismálanefnd vill með tillögu þessari leggja áherslu á nauðsyn þess að óbreyttir borgarar njóti verndar í samræmi við alþjóðalög um mannúð og mannréttindi og harmar gríðarlega þjáningu, manntjón og mannfall almennra borgara, eyðileggingu heimila og innviða sem verður að stöðva.”

Snemma morguns þann 7. október síðastliðinn gerðu Hamas-samtökin árás gegn Ísrael. Eldflaugum var skotið á Ísrael og vígamenn brutust yfir landamæri landsins og réðust á óbreytta borgara. Um 200 manns var rænt og farið með yfir sem gísla á Gaza-ströndina. Sólarhring síðar var orðið ljóst að yfir 600 Ísraelsmenn lágu í valnum og 2.000 hefðu særst.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er kallað eftir tafarlausu mannúðarvopnahléi og ekki tekin afstaða með annarri hvorri hlið átakanna. Það sem mestu máli skiptir er að takmarka og koma í veg fyrir að almennir borgarar verði fyrir tjóni, ofbeldi eða árásum vegna átaka stríðandi fylkinga. Það hafa einnig um 80 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna látist í átökunum en þau sem fara verst út úr þessu eru börn. Þau eiga aldrei að vera fórn í átökum sem þessum eða neinum öðrum. Það á að vera leiðarljósið að við verndum börn og aðra viðkvæma hópa gegn stríðsátökum. Ég leyfi mér að nefna sérstaklega fatlað fólk sem á erfitt með að ferðast og koma sér úr aðstæðum. Það á ekkert barn og enginn að þola það að búa við slíka ógn eða slíkt óöryggi.

Við fordæmum hvers kyns ofbeldi, hryðjuverk og tjón á almennum borgurum. Slíkt er aldrei réttlætanlegt og stríðir gegn alþjóðalögum. Við styðjum vitanlega Ísraelsmenn eins og við höfum ætíð gert í viðleitni þeirra til að tryggja öryggi sitt og framtíð. En við hljótum að áfellast þá miklu hörku sem þeir hafa óumdeilanlega sýnt undirokaðri þjóð Palestínumanna. Það er fjölmargt sem staðfestir það og við hljótum að gagnrýna það mjög. Ég segi: Við erum með þessu að fordæma þær óásættanlegu aðstæður sem uppi eru fyrir botni Miðjarðarhafs en ljóst er að stærri ríki, líkt og Bandaríkin, þurfa að beita pólitískri forystu til að koma á slíku mannúðarvopnahléi, svo hægt sé að koma á mannúðaraðstoð á svæðið og koma almennum borgurum burt af svæðinu. Slíkt er ekki hægt á meðan sprengjum rignir yfir svæðið og eitt líf almenns borgara sem lætur lífið í átökum milli ríkja er einu lífi of mikið.

Það er grundvallaratriði í utanríkisstefnu okkar Íslendinga að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Íslendingar viðurkenndu stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma en framganga ríkisstjórnar við óbreytta borgara Palestínumanna á Gaza er tvímælalaust mjög ámælisverð. Íslendingar hafa í seinni tíð reynt að leggja undirokuðum þjóðum lið þar sem þeir hafa haft tækifæri til og stutt frelsisbaráttu þeirra og tekist að hafa heilladrjúg áhrif á alþjóðavettvangi. Íslendingar hafa öðlast virðingu annarra þjóða fyrir þetta og vil ég taka undir og vitna til mikilvægrar atkvæðaskýringar Íslands á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þann 27. október síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Ísland tekur undir ákall um mannúðarhlé til að auðvelda örugga afhendingu mannúðaraðstoðar um allt Gaza. Tryggja þarf öruggt og óhindrað mannúðaraðgengi. Vernda verður almenna borgara og borgaralega hluti, heilbrigðisstarfsfólk og mannúðarstarfsfólk og eignir.

Við hörmum gríðarlegar þjáningar saklausra borgara og þeirra þúsunda manna, þar á meðal kvenna, barna og starfsfólks Sameinuðu þjóðanna, sem týnt hafa lífi. Við höfum áhyggjur af áhrifum brottflutnings fjölda almennra borgara á Gaza.

Við verðum að koma í veg fyrir frekari stigmögnun, vegna Ísraelsmanna, Palestínumanna og þessa heimshluta. Þetta linnulausa ofbeldi kyndir undir hatur, gyðingahatur, íslamófóbíu og kynþáttafordóma um allan heim.”

Virðulegi forseti. Það er skýlaus krafa okkar að staðinn sé vörður um alþjóðalög, að við stöndum vörð um mannréttindi og það sem mestu máli skiptir; stöndum vörð um þau saklausu börn sem eru að láta lífið í tugum talið á hverjum einasta degi frá upphafi átakanna. Við hér á Alþingi eigum að taka skýra afstöðu er lýtur að því að við sættum okkur ekki við ofbeldi eða hryðjuverk gagnvart almennum borgurum og styðjum því þessa mikilvægu ályktun þegar í stað og vonumst til þess að alþjóðasamfélagið allt taki höndum saman og beiti pólitískri forystu sem ein heild svo mannúðarvopnahlé komust á og takmarka megi að frekari mannslíf tapist í þessum ömurlegu átökum sem þarna geisa.

Virðulegur forseti. Lykilatriðið er að grundvallarmannréttindi séu virt og sú grundvallarregla í alþjóðasamstarfi að fordæma skilyrðislaust hryðjuverkasamtök og önnur ódæðisverk.