154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég styð þessa tillögu og minn flokkur. Við teljum að þetta sé mikilvægt skjal og beri vott um góð vinnubrögð í utanríkismálanefnd og ég vil þakka hv. formanni Diljá Mist Einarsdóttur fyrir vinnuna á bak við þetta skjal sem og allri utanríkismálanefnd. Það er mikilvægt að Ísland tali máli friðar og virðingar fyrir mannslífum á alþjóðavettvangi. Við erum herlaus þjóð og eigum allt undir því að alþjóðalög séu virt og að öll átök og deilur í heiminum séu leystar með friðsamlegum hætti. Í þingsályktunartillögu þessari kemur fram skýr og jákvæð samstaða Alþingis og er líklega með þeim bestu vinnubrögðum sem ég hef séð frá því ég tók sæti hér á Alþingi.

Þegar við Íslendingar horfum til þessa hildarleiks og hörmunga sem hafa átt sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs undanfarnar vikur þá erum við algerlega orðlaus, alveg frá því að hryðjuverkasamtökin Hamas réðust inn í Ísrael 7. október síðastliðinn og drápu 1.400 manns og tóku yfir 200 gísla og fluttu til Gaza. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðu sína hér áðan þar sem hann lýsti aðstæðum á kibbutzi og þeim upplýsingum sem hann fékk í Ísrael um þær hörmungar sem áttu sér stað 7. október, sem er mikilvægt innlegg í umræðuna. En síðan 7. október hafa yfir 10.000 íbúar Gaza, þar af 4.000 börn, látið lífið í sprengjuárásum Ísraelshers á Gaza. Yfir 40% látinna eru börn. Það er ámælisvert. Dráp á einum einstaklingi eða 1.400 einstaklingum leiðréttir ekki dráp á 10.000 einstaklingum eða 4.000 börnum. Það gerir það ekki og það er væntanlega stríðsglæpur.

Eins og hér hefur komið fram var Ísland fyrsta ríkið til að viðurkenna Ísrael við stofnun þess 1947. Ísland var einnig eitt af fyrstu ríkjunum til að viðurkenna stofnun ríkis Palestínumanna. Ísland hefur ætíð stutt svokallaða tveggja ríkja lausn í þeim áratugadeilum sem hafa átt sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Þær deilur verða ekki leystar með hernaði eða stríðsátökum eða drápum á óbreyttum borgurum. Þær verða aldrei leystar þannig. Það vita allir hér inni, allir sem hafa kynnt sér þetta mál. Þetta verður einungis leyst með pólitísku samkomulagi og friðarsamningum. Það er eina lausnin. Þessi friður verður að byggjast á mannréttindum og virðingu allra einstaklinga og þjóðarbrota sem eru á svæðinu, Ísraelsmanna og Palestínumanna. Bæði ríkin og báðar þjóðirnar eiga rétt á því að lifa í sátt og samlyndi í sitthvoru ríkinu og væntanlega nánu samstarfi í framtíðinni. Það verður einungis gert með friðarsamningum og stórveldin verða að standa á bak við þá friðarsamninga sem þar verða að koma. Ég er orðinn það gamall að ég man eftir Óslóarsamkomulaginu 1993 og þeim væntingum sem það samkomulag fól í sér og allir bundu vonir um að þá kæmi tveggja ríkja lausnin sem yrði loksins að veruleika. Ég man líka eftir því þegar Yitzhak Rabin, helsti leiðtogi Ísraelsmanna, var drepinn og því sem fylgdi í kjölfarið og við vitum það, allir sem kynna sér málið, hvernig stóð á því að Óslóarsamkomulagið var ekki virt og það varð nánast ekki að neinu.

Þessi þingsályktunartillaga er mjög mikilvægt framlag til þess að Ísland tali einni röddu og Alþingi Íslendinga tali einni röddu. Ég tel að þetta sé vel unnið plagg og rétt orðað og taki til allra atriða sem skipta máli. Kjarninn í utanríkisstefnu Íslands á að vera virðing fyrir alþjóðalögum og friður, og samningaviðræður í þeim átaka- og deilumálum sem eiga sér stað í heiminum, ekki stríðsátök. Allir sem kynna sér sögu stríðs, hvort sem það er Víetnamstríðið eða stríðin í Afganistan og Írak, sjá hversu tilgangslaus stríð það eru. Ísland á að vera friðarþjóð. Landið hérna fyrir austan okkur, Noregur, lítur á sig sem friðarþjóð. Það greiddi atkvæði með tillögu Jórdaníu á meðan við sátum hjá. Ég tel að við eigum alltaf að greiða atkvæði með vopnahléum, alltaf. Við erum herlaus þjóð og við eigum alltaf að skoða það þannig að við erum herlaus þjóð sem ekki hefur verið ráðist á og við eigum að tryggja það og stuðla að því að alþjóðalög verði virt.

Mig langar aðeins að fara í nokkur atriði í þessari þingsályktunartillögu sem ég tel að skipti máli og vil vekja sérstaka athygli á. Það er að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu sem tryggi öryggi almennra borgara. Hér er um gríðarlega mikilvægt atriði að ræða. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar og öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða, líkt og segir í lok 1. mgr. tillögu þessarar. Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara Ísraels sem hófst 7. október síðastliðinn. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þar með talið óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða og ekki síst, og þetta er mikilvægt atriði: Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar. Íslandi ber skylda til þess að sjá til þess og stuðla að því að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verið rannsökuð til hlítar og þau verði látin bera ábyrgð sem ábyrgð eiga að bera.

Ég vonast til þess að utanríkisráðuneytið taki þetta upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hjá þeim stofnunum sem þetta mál heyrir undir.

Alþingi kallar líka eftir mannúðlegri meðferð og tafarlausri lausn gíslanna 200 sem eru á Gaza, sem er líka gríðarlega mikilvægt mál.

Ég tel að þessu máli sé ekki á nokkurn hátt lokið og ég tel að það verði eingöngu leyst með því að það fari fram rannsókn á þeim brotum sem hafa átt sér stað, bæði 7. október og líka þeim sprengjuárásum sem hafa leitt til þess að yfir 4.000 börn hafa látist. Það er mikilvægt og það eru mikilvæg skilaboð frá herlausri þjóð að tafarlaust verði komið á vopnahléi og að farið verði að alþjóðalögum, og hafi verið brotin alþjóðleg mannúðarlög, hafi verið stunduð fjöldamorð þarna og þjóðernishreinsanir, þá verði það rannsakað og tekið fyrir á alþjóðavettvangi hjá þeim stofnunum sem það á undir.