154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég held að við höfum mörg verið dálítið stolt af Alþingi okkar árið 2011 þegar, þvert á það sem er lenskan í alþjóðasamfélaginu sem hefur brugðist Palestína áratugum saman, Alþingi tók sig til og viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Steig fram fyrst vestrænna ríkja og sagði: Hér viljum við standa með sjálfstæðis- og mannréttindabaráttu á alþjóðavettvangi. Það er það minnsta sem við getum gert fyrir palestínsku þjóðina. Reyndar skar Sjálfstæðisflokkurinn sig þar úr, hjáseta virðist vera lenska þar á bæ þegar kemur að málefnum Palestínu, en allir aðrir flokkar í þingsal sögðu já.

En þessu fylgir ábyrgð fyrir íslenska ríkið. Nú er það formleg utanríkispólitísk afstaða Íslands að standa með sjálfstæðri og fullvalda Palestínu, skýr vilji Alþingis sem stjórnvöld eiga að fylgja eftir. Stjórnvöld ættu í rauninni að aðstoða Palestínu við fyrstu skrefin í áttina að fullveldi og sjálfstæði. Þess vegna stakk það okkur svo mörg þegar fulltrúar Íslands sátu hjá við atkvæðagreiðsluna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vegna þess að Ísland átti nákvæmlega að lenda á sama stað og Noregur t.d. sem studdi ályktun allsherjarþingsins á þeim forsendum að Noregur vildi standa með friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar á Ísland alltaf að vera, landið sem viðurkenndi Palestínu fyrst vestrænna ríkja.

En við megum líka spyrja okkur sjálf, eða kannski ættum að spyrja ráðherrana: Hefur Ísland staðið sig í praxís í að standa með fullveldi og sjálfstæði Palestínu? Hvar sér þess merki í utanríkisstefnu? Hvar eru aðgerðirnar sem þarf til að fylgja eftir þessum skýra vilja Alþingis frá 2011? Hér hefur verið bent á stuðning við flóttamannahjálpina og ýmiss konar fjárframlög til Palestínu, mannúðaraðstoð sem nauðsynleg er, en erum við að tala nógu sterkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Erum við að ræða af nógu mikilli festu við Ísrael þegar ríkið gengur of langt gagnvart þjóð sem við viðurkennum sem sjálfstæða? Vegna þess að sú viðurkenning hefur alvöruafleiðingar. Þegar Ísrael ræðst inn í Palestínu, sama hver ástæðan er, þegar Ísraels ræðst í ríki sem Ísland viðurkennir sem sjálfstætt þá fylgir því að við höfum viðurkennt sjálfstæðið að við segjum stopp. Það er ekki hægt að segja A án þess að segja B. Ég held að þetta hafi misfarist hjá íslenskri utanríkisþjónustu á síðustu árum en ég vona að nú horfi til betri vegar þegar við fáum þessa ályktun hér samþykkta, þegar vilji þingsins verður aftur skýr, að við stöndum með fólki og við stöndum með friði.

Ég ætla ekki að dvelja við kjánahrollinn sem fylgdi því að fylgjast með ríkisstjórninni engjast í réttlætingu á hjásetu á allsherjarþinginu, þingið er sem betur fer að grípa í taumana og þá erum við komin á beinu brautina. Tölum einum rómi, erum skýr.

Mig langar aðeins að fara yfir sögu síðustu ára vegna þess að þó að árásir Ísraels þess hafi keyrt upp úr öllu valdi núna á síðustu fjórum vikum þá erum við auðvitað að tala um áratugasögu og reglulega koma einhverjir hápunktur í átökunum. Þetta hefur valdið því að fjöldi fólks sér þann eina kost í stöðunni að flýja. Þúsundir Palestínumanna eru á flótta víða um lönd. Mörg þeirra rata hingað til Íslands. Þannig var það sérstaklega kaldhæðnislegt vorið 2021, sem er kannski síðast þegar árásir Ísraelshers náðu hápunkti líkt og núna, ekki jafn stórum og við erum að fylgjast með núna en engu að síður var staðan sú að hundruð voru drepin og þúsund lágu særð eftir árásir Ísraels á Palestínu, að á þeim sama tíma valdi Útlendingastofnun að vísa níu palestínskum umsækjendum um alþjóðlega vernd á götuna. Þeim var vísað allslausum á götuna vegna þess að þau vildu ekki undirgangast læknisrannsókn til að auðvelda brottvísun frá landinu. Þau vildu sem sagt ekki auðvelda ríkinu það að vera vísað burt þangað sem þau voru að flýja frá. Þar með var þeim bara hent allslausum á götuna, það átti svelta þau til hlýðni. Þetta var síðan dæmt ólöglegt. Viðbrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur voru að leggja til breytingar á útlendingalögum sem hefðu gert þetta löglegt. Hluti þeirrar breytingar náði í gegn núna í vor með atkvæðum stjórnarliða. Utanríkispólitík er nefnilega ekki bara eitthvað sem við gerum í útlöndum heldur líka hvernig við komum fram heima fyrir. Og ef íslensk stjórnvöld ætla að standa með Palestínu í alvöru þá standa þau líka með palestínsku flóttafólki sem er hérna.

Staðan er nefnilega sú að eiginlega alltaf þegar umsóknir palestínskra umsækjenda um alþjóðlega vernd eru teknar efnislega fyrir hér á Íslandi þá eru þær samþykktar vegna þess að fólk er að flýja þannig aðstæður að það er ekki annað hægt en að veita því skjól. Trixið hjá stjórnvöldum þekkjum við náttúrlega vel, það er að forðast að taka efnislega afstöðu, að nota Dyflinnarreglugerðina eða það að fólk hafi haft millilendingu í öðru Evrópuríki sem afsökun til að skúbba fólki burt án þess að líta á mál þess efnislega. Það sem af er ári er búið að endursenda 43 Palestínumenn á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 72 vegna þess að viðkomandi voru með vernd í öðru landi. Þetta eru 115 manns, þar af 22 börn sem eru að flýja ástandið í Palestínu, fá ekki skjól hjá ríkisstjórninni. Þessu þarf líka að breyta.

Hér rétt í lokin, forseti, get ég ekki látið hjá líða að nefna frumlegar orðskýringar formanns Miðflokksins sem þarf — fyrirgefið, hann þarf bara að átta sig á því að hann getur ekki breytt skýrum texta þingsályktunartillögu með einhverri bókun á nefndarfundum með því að mæta hér í pontu og láta eins og eitthvað allt annað standi á þessu blaði en stendur á þessu blaði. Hér er talað um vopnahlé. Við notum ekki orðskrípið mannúðarhlé hér, það stendur bara vopnahlé. Formaður Miðflokksins þarf að sætta sig við það. Í dag ætlar Alþingi að tala fyrir friði. Árið 2011 sagði Alþingi: Frjáls Palestína. Í dag segir Alþingi: Vopnahlé strax.