132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[15:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að ýmis góð mál hafa komið til okkar í gegnum EES-samninginn og samstarf við Evrópu. En hitt er annað mál að það afsakar ekki stjórnvöld frá aðgerðaleysinu. Mér finnst það algerlega fáránlegt að stjórnvöld sitji með hendur í skauti og bíði stöðugt eftir tilskipunum frá Evrópusambandinu um úrbætur í ýmsum málum.

Ég hefði haldið að hér ættu að starfa metnaðarfull stjórnvöld sem hefðu sjálfstæðan vilja sem innleiddu góð mál eftir því sem hugur, efni og ástæður stæðu til en ekki af því að tilskipanir kæmu frá Evrópusambandinu. Mér finnst það bara ekkert merkilegt þegar íslensk stjórnvöld eru oft og tíðum löngu eftir að allir frestir eru útrunnir að innleiða einhverjar tilskipanir frá Evrópusambandinu á málum sem þeir hefðu auðvitað átt að vera búnir að koma í lag fyrir löngu að eigin frumkvæði.