132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[16:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er farið að færast í vöxt að hæstv. ráðherrar telji að þeim nægi að svara umræðu í einu litlu andsvari ef þeir þá láta svo lítið. Mér finnst það sem ég hóf máls á í ræðu minni krefjast örlítið dýpri umfjöllunar af hæstv. umhverfisráðherra heldur en það að svara því í einni setningu í andsvari við hv. þm. Jóhann Ársælsson. Ég tel að úr þessum ræðustóli þurfi að koma ábending til hæstv. ráðherra um að þetta sé ekki sæmandi. Umræða um þingmál er í ákveðnu formi samkvæmt þingskapalögum og í sjálfu sér ætti hæstv. forseti að gefa hæstv. ráðherrum áminningu þegar þeir leyfa sér að svara einum þingmanni í andsvari hjá öðrum.

Ég bið hæstv. umhverfisráðherra að eyða örlítið fleiri orðum á þau mál sem ég í stuttu máli reifaði. Mér finnst þessi umræða eiga það skilið að fá örlítið meira heldur en þessa einu setningu í andsvari við hv. þm. Jóhann Ársælsson.